Tæplega sex af hverjum tíu Íslendingum vilja takmarka setu á forsetastóli við ákveðinn fjölda kjörtímabila. Tæplega helmingur vill að takmarkið verði sett við tvö kjörtímabil en 17 prósent vilja að áfram verði engin mörk. Þetta kemur fram í könnun sem Maskína gerði fyrir Morgunútgáfuna og sagt var frá í morgun.
Samkvæmt henni vilja rúm 20 prósent að þrjú kjörtímabil sé hámarksseta á forsetastóli, en hvert kjörtímabil er fjögur ár. Um fjórðungur vill að forseti geti setið tvö kjörtímabil og því er tæplega helmingur aðspurðra þeirrar skoðunar að forseti sé ekki lengur í embætti en þrjú kjörtímabíl eða færri. Konur og háskólamenntaðir eru liklegri til að styðja takmörkun á fjölda kjörtímabila. Fleiri kjósendur Framsóknarflokksins eru hins vegar andvígi slíku kerfi en fylgjandi því. Meirihluti kjósenda Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar eru fylgjandi takmörkunum.
Tæp 45 prósent þeirra sem eru fylgjandi því að takmörk séu sett á setu á forsetastóli eru þeirrar skoðunar að ein og sama manneskjan sitji í embætti í tvö kjörtímabil. Tæp 37 prósent vilja að hámarkið verði sett við þrjú kjörtímabil. Því telja yfir 80 prósent þeirra sem spurðir voru álits í könnuninni að lengd setu forseta verði sett mörk rétt að forseti sitji í þrjú kjörtímabil eða færri. Einungis um tíu prósent aðspurðra höfðu þá skoðun að forseti ætti að sitja fjögur kjörtímabil.
Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti Íslands, hefur setið á forsetastóli frá árinu 1996. Hann er því að ljúka sínu fimmta kjörtímabili. Ólafur Ragnar hefur enn ekki gefið út hvort hann muni bjóða sig fram á ný í forsetakosningunum sumarið 2016 en hefur sagt að hann muni tilkynna um það í næsta áramótaávarpi sínu.
Könnunin var framkvæmd dagana 24. júlí til 13. ágúst og voru svarendur 751.