Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, er ekki fylgjandi núverandi útfærslu á náttúrupassa Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í samtali við Helga Seljan í Vikulokunum á Rás 1 í morgun sagði nýskipaður umhverfis- og auðlindaráðherra: „Ég er ekkert alveg fylgjandi nákvæmlega eins og ráðherra vill taka gjaldið, en mér finnst bara spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu núna í þinginu.“
Frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa bíður umfjöllunar á Alþingi. Sigrún telur þjóðina sammála um nauðsyn þess að styrkja innviði ferðaþjónustunnar og mikilvægi þess að komið verði á fót sérstökum sjóði til að fjármagna uppbyggingu og varðveislu ferðamannastaða á Íslandi. Þjóðin sé hlynnt því að gjald verði tekið af ferðamönnum, en deilt sé um hvernig að því skuli staðið. „Og það er sama með Náttúrupassann eins og svo margt annað sem snertir þetta ráðuneyti sem ég var að taka við, mikilvægast af öllu er að ná sátt meðal þjóðarinnar meðal fólks með ólík sjónarmið um nýtingu náttúrunnar, og eins held ég að það sé með Náttúrupassann að við þurfum að ná sátt um hvernig við getum tekið þetta gjald.“
Sigrúnu, sem jafnframt er formaður Þingvallanefndar, líst illa á að komið verði upp gjaldskýlum eða hliðum á ferðamannastöðum til að hafa eftirlit með gjaldtökunni. „Mér hugnast mjög illa að það sé gjaldtaka á hverjum stað, hlið eða að maður þurfi að vera með spjald til þess að fara inn. Ég er ekki fullkomlega sátt við það, og vil fá að heyra fleiri skoðanir og umræður um málið. Ég er eiginlega alveg sannfærð um að við finnum á þessu góða lausn,“ sagði nýskipaður umhverfis- og auðlindaráðherra í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.