„Við eigum að sýna þann þroska að geta gert þetta með almennilegum hætti og gera það sem best, við sem rík þjóð, en snúa þessu máli ekki á hvolf, að þarna sé einhver stórhætta á ferðinni, að við séum að opna fyrir óheftan flutning fólks hingað víðs vegar úr heiminum. Við erum að samræma þessa þjónustu, vinna þetta af okkar bestu getu og eigum að gera það. Ég tel það vera skömm að tala þetta mál niður.“
Þetta sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Vísar hún í umræðu sem átti sér stað á Alþingi í gær um stjórnarfrumvarp sem snýr að því að útvíkka hlutverk Fjölmenningarseturs og auka fjárframlög til stofnunarinnar.
Miðflokksmenn héldu uppi, því sem þingmaður Vinstri grænna Kolbeinn Óttarsson Proppé kallaði málþóf, í gær en þeir hafa lýst yfir áhyggjum af því að lagabreytingin fjölgi innflytjendum á Íslandi.
Í frétt RÚV um málið í gær kom fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefði sagt það ljóst að hælisleitendakerfið á Íslandi væri misnotað. „Enda ekki hægt að gera ráð fyrir að glæpagengi sem taka aleiguna af fólki og setja það í lífshættu muni vilja fylgja í öllum tilvikum settum reglum,“ sagði hann og benti á að ef kerfið auðveldaði misnotkun bitnaði það mest á þeim sem þurfa á hjálp að halda.
„Og þess vegna þurfum við við hönnun móttökukerfis að setja í forgang að það sé til þess fallið að aðstoða þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda.“ Með frumvarpinu væri ríkisstjórnin að gera sig að jaðarhópi í þessum málaflokki. „Því í Danmörku er samstaða frá hægri til Sosíaldemókrata, og raun lengra til vinstri, um að breytinga sé þörf. Og þær breytingar ganga þvert á það sem lagt er til hérna,“ sagði Sigmundur Davíð.
Staða hælisleitenda og flóttamanna alþjóðavandi
Lilja Rafney gaf lítið fyrir þessa orðræðu Miðflokksmanna í máli sínu á þingi í dag. „Ég verð að viðurkenna það að sú mikla umræða sem hér hefur farið fram undanfarinn sólarhring um málefni innflytjenda gengur fram af mér. Þetta er gott mál sem er verið að leggja fram með yfirgnæfandi stuðningi hér á Alþingi. En það virðist vera að einn flokkur ákveði að leggja þetta mál upp þannig að það sé rétt að sá ótta og tortryggni gagnvart því við almenning í landinu. Þarna er verið að gera eitthvað sem er ekki gott í samhengi hlutanna,“ sagði hún.
Benti hún á að staða hælisleitenda og flóttamanna væri alþjóðavandi og við sem þjóð bærum siðferðislegar skyldur til að taka okkar skerf og gera það sem við getum til að hafa þessi mál í sem bestu lagi hér heima.
„Það erum við að gera með því frumvarpi sem hér liggur fyrir um málefni innflytjenda. Við erum að tengja Fjölmenningarsetrið, sem hefur sinnt sínu hlutverki vel og hefur verið staðsett á Ísafirði, og víkka það núna inn á höfuðborgarsvæðið, það er verið að samræma móttöku kvótaflóttamanna og hælisleitenda og að Fjölmenningarsetur geti veitt sem bestar upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði til þeirra sveitarfélaga sem hafa verið að taka á móti kvótaflóttamönnum og auðvitað heilt yfir gagnvart innflytjendum hér á Íslandi,“ sagði Lilja Rafney.