Ríkisstjórnir um allan heim ættu að bæta félagslegt öryggisnet listafólks, þar sem meiri óvissa hefur ríkt um fjárhagsstöðu þess á síðustu árum. Þetta segir mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í nýbirtri skýrslu sinni um stöðu menningargeirans.
Fleiri neytendur en meiri óvissa
Samkvæmt UNESCO hefur vægi stafrænnar listar aukist hratt á síðustu árum, sérstaklega eftir að heimsfaraldurinn hófst. Á sama tíma hafa tekjur listafólks af listaviðburðum minnkað og stærri hluti þeirra komið frá alþjóðlegum streymisveitum.
Samtökin segja þessa stafræna umbreytingu menningarafurða hafa leitt til fjölda vandamála fyrir listafólk. Þeirra á meðal eru deilur um einkarétt,, harðnandi samkeppni og tekjukerfi sem skila ekki nægum tekjum til þeirra sem skapa afurðirnar sjálfar.
Þar að auki nefnir UNESCO að fjárfestingar hins opinbera í listgreinum, sem 6,2 prósent starfandi fólks vinnur við og stuðli að 3,1 prósentum af framleiðslu heimsbyggðarinnar, hafi minnkað á síðustu tíu árum.
Ernesto Ottone, aðstoðarframkvæmdastjóri menningar fyrir UNESCO, sagði í viðtali við Guardian að ákveðin þversögn hafi sprottið upp úr ástandinu, þar sem fleiri neyta nú menningarafurða um allan heim á meðan erfiðara sé fyrir listafólk að finna sér vinnu.
Stuðningur við verktaka nauðsynlegur
Þrátt fyrir að ríkisstjórnir víða um heim reyndu að bregðast við tekjufalli listamanna vegna faraldursins og sóttvarnaraðgerðanna sem honum fylgdi drógust heildartekjur skapandi greina saman um 750 milljarða Bandaríkjadali árið 2020.
Þá segir UNESCO að nauðsynlegt sé að tryggja listafólki fjárhagslegt stuðningsnet, en að stór hluti þess sé annað hvort verktakar eða sjálfstætt starfandi og falli því utan velferðarkerfisins í mörgum ríkjum. Samtökin nefna ekki hvernig stjórnvöld ættu að gera það, en bæta þó við að ákall eftir borgaralaunum og lágmarkslaunum fyrir alla á vinnumarkaði hafi aukist í kjölfar faraldursins.