Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, er á móti því að ríkið kaupi gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum ef gagnanna var aflað með ólögmætum hætti.
Í ályktun sem Heimdallur sendi frá sér í morgun segir að afar slæmt fordæmi muni skapast ef „greiða á einstaklingum verðlaunafé fyrir að afla sönnunargagna þegar löglegar heimildir sem ríkið hefur til öflunar sönnunargagna bresta.“ Ekki eigi að borga tölvuþrjóti verðlaunafé fyrir að brjótast inn í fjármálastofnanir og stela upplýsingum.
Þá segja Heimdellingar að alls óvíst sé hversu nothæf gögnin úr skattaskjólum eru og hvort þau muni skila tilætluðum árangri. Einnig sé líklegt að féð sem íslenska ríkið myndi eyða í kaup á gögnunum yrði í framhaldinu notað til að fjármagna ólöglega starfsemi. „Félagið fordæmir skattsvik og telur mikilvægt að þau séu upprætt, en minnir á að tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið,“ segir að lokum í ályktuninni.
Í gær greindi Bryndís Kristjánsdóttir ríkisskattstjóri frá því að embætti hennar myndi ganga til samninga við aðilann sem hefur boðið til sölu lista yfir rúmlega 400 Íslendinga sem eiga eignir í skattaskjólum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hefur lýst yfir vilja ráðuneytisins til að fá gögnin. Þeim sem ekki taki þátt í samfélagslegum skyldum með því að borga skatta verði ekki gefin nein grið.