Framlög ríkissjóðs til framkvæmda við iðnaðarsvæði á Bakka í Norðurþingi hækka um 1,5 milljarða króna, samkvæmt fjárlögum sem kynnt voru í gær. Kostnaður við gangagerð og vegtengingu við iðnaðarsvæðið er 1,3 milljarði hærri en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar gerði ráð fyrir. Þegar Alþingi veitti iðnaðarráðherra heimild til að semja við Vegagerðina um framkvæmdina var gert ráð fyrir að kostnaður yrði 1,8 milljarðar króna. Nú hljóðar áætlunin upp á 3,1 milljarð króna. Skýringin er sögð sú að í kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar sem lögin byggðust á voru mannvirki óhönnuð og kostnaður við hefðbundinn veggöng staðfærður yfir á þessi göng. Fréttastofa RÚV greinir frá.
Í fjárlagafrumvarpinu er gerð tillaga um 640 milljóna króna tímabundið framlag vegna viðbótarkostnaðar við gangagerð og vegtengingu auk þess sem tímabundið framlag upp á 850 milljónir króna, sem veitt var á síðustu fjárlögum, verði framlengt um eitt ár.
Það er þýska fyrirtækið PCC sem áformar að byggja kísilverksmiðju á Bakka. Í maí síðastliðnum var greint frá niðurstöðu á athugun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að samningar Landsvirkjunar og Landsnets við félagið PCC Bakki Silicon, um kaup og flutning raforku, feli ekki í sér ríkisaðstoð.