Íbúðalánasjóður lánaði 534 milljónir króna til íbúðakaupa í síðasta mánuði. Sjóðurinn hefur ekki lánað meira í einum mánuði á þessu ári. Meðalfjárhæð lána var 13 milljónir króna.
Uppgreiðslur lána hjá sjóðnum námu 5,4 milljörðum króna í júlí, samanborið við 1,8 milljarða í júní. Það sem af er ári nema uppgreiðslur rúmlega fimmtán milljörðum króna.
Uppgreiðslur lána í júlí voru þannig ríflega tíu sinnum hærri en ný útlán í mánuðinum.
Fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs að ástæður fyrir háum uppgreiðslum í júlí eru helst vegna tafa í afgreiðslu Sýslumanns undanfarna mánuði vegna verkfalls lögfræðinga.
Vanskil jukust í júlí. Í lok mánaðarins nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga tæplega 3,3 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 34,6 milljarðar króna eða um 6,8 prósent útlána Íls til einstaklinga. Heimili í vanskilum eru 1.798 talsins og þar af eru 40 heimili með frystingu á lánum sínum. Hlutfall heimila í vanskilum er þó lægra í dag en það var í júlí 2014, þegar 9,4 útlána sjóðsins til einstaklinga var í vanskilum.
Í lok júlí átti Íbúðalánasjóðir 1.522 eignir. Sjóðurinn seldi 38 eignir í júlí en 33 nýjar bættust við. Frá áramótum hafa 583 eignir verið seldar en 216 nýjar hafa bæst við í eignasafnið. Í lok júlí voru 742 eignir í almennri sölumeðferð hjá fasteignasölum víðsvegar um landið.