Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, gagnrýnir fréttastofu RÚV fyrir skort á fréttaflutningi og umfjöllun um eldgosið í Holuhrauni, í stöðuuppfærslu sem hann birtir á Facebook síðu sinni.
Tilefnið er stórfenglegt myndband á vegum ArtioFilms eftir Jón Gústafsson, sem hægt er að horfa á hér að neðan. Svo virðist sem að kvikmyndagerðarmennirnir hafi notið þjónustu Reykjavík Helecopters við gerð myndbandsins, en nafn þyrluflugfélagsins er getið í myndbandinu.
Kallar Ómar Ragnarsson fljúgandi eftirlaunaþega
Í stöðuuppfærslu sinni skrifar upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar: "Lét eftir mér að horfa á þetta glæsilega myndband og fór í framhaldinu að velta fyrir mér hve lítið er annars fjallað um þá einstöku atburði sem eiga sér stað fyrir norðan Vatnajökul. Ég hef t.d ekki séð slík mynbönd hjá sjónvarpi allra landsmanna, RÚV. Mér finnst bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið hafa að mörgu leyti staðið sig vel í umfjöllun um gosið og ekki er hægt að vanþakka framlaga Stöðvar 2 með KMU (Kristján Már Unnarsson) í broddi fylkingar."
Þá fjallar Sigurður Már um þróun eldgossins og skrifar að lokum: "Gosið er að sögn jarðfræðinga einstakt og til landsins streyma erlendir fræðimenn. En það vantar að rekja hina einstöku þróun þess betur. Skyldi sjónvarp allra landsmanna hafa áhuga á slíku eða er bara treyst á tilfallandi innslög fljúgandi eftirlaunaþega?"