Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum söguðu tíu lífeindafræðingar upp störfum á sýkladeild á Landspítalanum í dag, að því er fram kemur á vef RÚV. Uppsagnir sérfræðinga, þar á meðal hjúkrunarfræðinga, eru nú komnar yfir 200 og hefur forstjóri spítalans, Páll Matthíasson, sagt að staðan sé alvarleg.
Þriðjungur geislafræðinga á spítalanum hafði sagt upp störfum um miðjan mánuðinn og var þá ekki fyrirsjáanlegt að uppsagnirnar gengu til baka, fyrir hápunkt sumarfría á spítalanum. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í frétt RÚV hefur einnig verð töluvert um uppsagnir á öðrum deildum spítalans.
Verkfallsaðgerðir BHM eru enn í gangi, þar sem ekki hefur tekist að ná samningum við ríkið. Félögin sem eru í verkfallsaðgerðum, sem meðal annars ná til heilbrigðisstarfsfólks, eru sautján talsins. Dýralæknafélag Íslands, Félag geislafræðinga, Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félag íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníunnar), Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Félagsráðgjafafélag Íslands, Fræðagarður, Iðjuþjálfafélag Íslands, Ljósmæðrafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði, Stéttarfélag lögfræðinga og Þroskaþjálfafélag Íslands.