Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur farið í sautján ferðir til útlanda í embættiserindum á kjörtímabilinu. Kostnaður ferðanna nemur rúmlega 16,7 milljónum króna.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar. Katrín sendi fyrirspurnir á alla ráðherra ríkisstjórnarinnar og er Sigmundur sá fyrsti til að svara.
Samtals hefur Sigmundur verið erlendis í opinberum erindagjörðum í 62 daga á kjörtímabilinu, það er frá lokum maí árið 2013 til loka maí 2015. Sigmundur hefur verið með einn til þrjá með sér í fylgdarliði í þessum ferðum.
Dýrasta og jafnframt lengsta ferðin er vegna ráðherraviku 69. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, um loftslagsmál, sem fór fram í New York. Þar var Sigmundur í sex daga, með þrjá í fylgdarliði sínu og kostnaðurinn nam tæpum tveimur milljónum króna. Ódýrasta ferðin fyrir ríkið var fjögurra daga heimsókn til Edmonton í Kanada, en kostnaður við hana nam 165 þúsund krónum. Ferðin var í tilefni af fyrsta flugi Icelandair til Edmonton og því líklegt að kostnaður við ferðalagið sjálft hafi ekki fallið á ríkið.