Verðmæti útflutnings á íslenskum afurðum til Rússlands var um fjörutíu prósent lægra á fyrri helmingi árs 2015 en á sama tímabili 2014. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 nam útflutningsverðmæti til Rússlands um 7.045 milljónum króna en verðmæti varnings á fyrstu sex mánuðum árs 2014 var 11.421 milljón króna.
Útflutningur í júní 2015 var þó meiri en í samanburði við júní 2014, eða 1.886 milljónir króna samanborið við 543 milljónir í fyrra. Sveiflur milli mánaða geta því verið nokkrar. Á síðustu árum hefur útflutningsverðmæti til Rússlands verið hærra á seinni helmingi árs og skýrist meðal annars af veiðitímabilum uppsjávarfisks.
Efnhagur Rússlands hefur átt undir högg að sækja undanfarin misseri. Í síðustu viku var greint frá því að landsframleiðsla landsins féll um 4,6 prósent á 2. ársfjórðungi 2015. Í fyrsta sinn frá 2009 er kreppa í Rússlandi, sem ekki síst má rekja til hríðfallandi olíuverðs sem stendur undir 50 dollurum á tunnu í dag. Viðskiptaþvinganir Vesturlanda hafa einnig bitið og er það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hagvöxtur í Rússlandi hafi minnkað um eitt til eitt og hálft prósentustig vegna viðskiptaþvingana, frá því þær voru settar á fyrir rúmu ári síðan.
Til að sýna mátt sinn, og samtímis auka innlenda framleiðslu, lögðu Rússar bann á innflutning matvæla frá sömu ríkjum og beita þá viðskiptaþvingunum. Eins og kunnugt er gildir bannið nú einnig fyrir Ísland. Bannið tók gildi í síðustu viku.
Hagstofan rannsakar áreiðanleika
Samkvæmt tölum Hagstofunnar nam útflutningur til Rússlands um 29,1 milljarði króna á síðasta ári (þar af 11,4 milljarðar á fyrri helmingi ársins). Stór hluti útflutnings, nærri 24 milljarðar króna, eru sjávarafurðir, helst makríll, loðna og síld.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa sagt að tölur Hagstofunnar gefi ekki rétta mynd af útflutningi sjávarafurða til Rússlands. Samtökin segja töluna hærri. Um 40 prósent af verðmætum sjávarafurða til Hollands fer áfram til Rússlands og 80 prósent af verðmætum sem flutt er til Litháen fer áfram til Rússlands, segir SFS.
Hagstofa Íslands birti í gær yfirlit yfir vöruskipti við Rússland á fimmtán ára tímabili, frá 1999 til 2014. Útflutningur til Rússlands hefur á þessum tíma margfaldast, frá því að nema um 2,3 milljörðum árið 2004 yfir í nærri 30 milljarða 2014.
Í umfjöllun Hagstofunnar, sem byggir á tollskýrslum, er fjallað um áreiðanleika talnanna og tekið fram að útflytjendum beri að greina frá því í tollskýrslum hvar varan endar. „Hagstofan byggir sínar tölur á þeim upplýsingum. Til að draga úr óvissu í þessum efnum hefur Hagstofan hafið rannsókn á nákvæmni upplýsinga um endanlegt ákvörðunarland útflutnings í tollskýrslum. Sú rannsókn beinist þó ekki að Rússlandi sérstaklega heldur fremur að háu hlutfalli Hollands í útflutningsskýrslum,“ segir Hagstofan.
Nærri 30 prósent af öllum útflutningi Íslands árið 2014 fór til Hollands, þar sem stærsta skipahöfn Evrópu er, í Rotterdam.