Útgerðir smábáta og fiskiskipa á Íslandi hafa hagnast um 97,5 milljarða króna á síðastliðnum fimm árum, eða frá árinu 2009. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Creditinfo tók saman að beiðni Kjarnans, en tölurnar eru fengnar úr ársreikningum útgerðarfyrirtækjanna.
Í sambærilegri frétt sem Kjarninn gerði um hagnað geirans í október, kom fram að útgerðin hefði hagnast um hátt í áttatíu milljarða króna á tímabilinu, en þá áttu nokkur hundruð félög enn eftir að skila inn ársreikningum fyrir rekstrarárið 2013. Á þeim tímapunkti höfðu 595 útgerðarfyrirtæki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2013, en í dag hafa 1056 útgerðir smábáta og fiskiskipa af þeim 1173 fyrirtækjum sem falla undir ÍSAT flokkunina skilað inn ársreikningum. Frestur til að skila inn ársreikningum fyrir árið 2013 rann út 31. ágúst síðastliðinn.
Mesti hagnaður greinarinnar undanfarin fimm ár
Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum nam hagnaður útgerðanna, eftir skatta, afskriftir og vaxtagjöld, rúmum 29 milljörðum króna árið 2013, sem er besta ársniðurstaða geirans á undanförnum fimm árum. Hagur fyrirtækjanna hefur vænkast hratt á tímabilinu, en sem dæmi um uppgang greinarinnar má nefna að árið 2009 nam hagnaður útgerðarinnar 4,6 milljörðum króna. Hagnaðurinn tók svo stökk árið eftir, og nam tæpum 15,4 milljörðum króna í árslok 2010.
Hagnaður útgerða fiskiskipa nam rúmum 24,2 milljörðum árið 2013, samanborið við tæpan 21 milljarð króna árið 2012. Þá nam hagnaður útgerða smábáta rúmum 4,8 milljörðum í árslok 2013, en þær högnuðust um tæpa 2,2 milljarða króna árið áður.
Í lok síðasta árs hljóðuðu heildareignir útgerðarfyrirtækjanna upp á tæpa 216 milljarða króna, en þá nam eigið fé félaganna tæpum 58,5 milljörðum króna.
Hafa ber í huga að fréttin byggir einvörðungu á ársreikningum fyrirtækja sem gera út fiskiskip og smábáta til veiða fyrir rekstrarárið 2013. Samkvæmt riti Hagstofunnar um hag fiskveiða og fiskvinnslu nam hreinn hagnaður sjávarútvegsins, samkvæmt ársgreiðsluaðferð, ríflega 57 milljörðum króna, eða 21,5 prósentum, samanborið við 22,6 prósent árið áður.