Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur óskað eftir því við Útlendingastofnun að hún bíði með að vísa á brott tveimur hælisleitendum, sem Hæstiréttur ákvað fyrir helgi að ætti að vísa úr landi og til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þetta kom fram í svari Ólafar við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi í dag.
Helgi Hrafn og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, spurðu Ólöfu bæði um málið á þingi, ekki síst í ljósi þessara tveggja Hæstaréttardóma sem féllu síðastliðinn fimmtudag. Þau minntu á að þann 17. september síðastliðinn sagði Ólöf á Alþingi að Grikkland, Ítalía og Ungverjaland væru ekki örugg ríki til að senda fólk aftur til.
Ólöf sagði mjög vandmeðfarið fyrir sig að fara að ræða um einstök mál. Hún sagðist hafa miklar áhyggjur af því sem hún sagði stærsta veikleikann í íslenska kerfinu, að fólk biði eftir málsmeðferð lengi, jafnvel svo árum skipti. Hún sagði að afstaða Íslands ætti að ríma við það sem gerist í nágrannaríkjum okkar, en afstaða annarra væri „töluvert á iði“ þessa dagana. Það þyrfti að passa að steypa ekki fólki í óöruggi, en sagði jafnframt að ungir karlmenn hefðu jafnan verið sendir aftur til Ítalíu og Ungverjalands, á meðan að mál „viðkvæmari hópa“, kvenna og barna væru metin hvert um sig. Annar mannanna sem Hæstiréttur ákvað að vísa úr landi er frá Nígeríu og er samkynhneigður. Hann gæti búist við refsingu, jafnvel dauðarefsingu, verði hann sendur aftur til síns heima.
Sigríður Ingibjörg benti á að þetta væri ekki bara spurning um þessa tvo hælisleitendur, heldur væri fjöldi fólks sem biði í ótta við að vera vísað héðan. Hún spurði hvort Ísland ætlaði að senda burt fólk til sömu landa og Evrópusambandið hefði ákveðið að flytja á annað hundrað þúsund manns í burtu frá.
Ólöf sagði þetta eðlisólíkt því fólkið sem verið væri að flytja frá þessum ríkjum væri fólk sem ekki hefði fengið neina efnismeðferð sinna mála. Hún sagði að það væri ekki ábyrgt af henni að fullyrða neitt um neina hluti „fyrr en ég er búin að fá það algjörlega á hreint hvernig er í pottinn búið.“ Málin væru til skoðunar, hún væri ekki að láta skoða þessi mál nema vegna þess að það sé ástæða til þess. „Lengra get ég ekki gengið“.