Einkahlutafélagið X-2121 var úrskurðað gjaldþrota 10. desember síðastliðinn, en félagið hét áður Útvarp Saga ehf. Nafni þess var breytt 22. september síðastliðinn og Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi félagsins, ritar undir nafnabreytinguna.
Rekstur Útvarps Sögu heyrir nú undir einkahlutafélagið SagaNet ehf., sem sömuleiðis er í 100 prósenta eigu Arnþrúðar Karlsdóttur. Félagið var stofnað í febrúarmánuði síðastliðnum.
Útvarpsstöðin var dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í maímánuði árið 2013 til að greiða Sigurði G. Tómassyni útvarpsmanni, sem jafnframt kom að stofnun stöðvarinnar, 745 þúsund krónur í vangoldin laun auk málskostnaðar. Útvarp Saga áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar Íslands, sem staðfesti niðurstöðuna í desember 2013.
Í grein í Séð & heyrt, sem birtist á síðasta ári, er haft eftir Arnþrúði að hún hyggist ekki una niðurstöðu Hæstaréttar og útvarpsstöðin stefni í gjaldþrot vegna þess. Þá segir í greininni: „Arnþrúður ætlar þó ekki að leggja árar í bát strax þótt krafan um gjaldþrot verði tekin fyrir í byrjun september. Hún segist vona að Útvarp Saga fái lifað og minnir hlustendur og velunnara stöðvarinnar á að hægt er að leggja henni lið á söfnunarreikningnum 0301-26-111100 á kennitölunni 640214-0310.“
Athygli vekur að kennitalan sem er skráð fyrir söfnunarreikningnum, er kennitala SagaNet ehf., en ekki Útvarps Sögu.
Í samtali við Kjarnann sagði Arnþrúður Karlsdóttir að rekstur Útvarps Sögu hefði verið seldur öðru félagi í febrúar. Hún vildi að öðru leyti engar upplýsingar veita blaðamanni.
Kjarninn náði ekki tali af skiptastjóra X-2121 ehf. (Útvarp Saga) við vinnslu fréttarinnar.