Stjórnendur útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu hafa falið lögmanni að lögsækja þá „sem harðast hafa gengið fram gegn persónum þeirra með óvægnum og ómálefnalegum hætti.“ Þetta segir lögmaðurinn, Sævar Þór Jónsson, á bloggi sínu á Eyjunni í dag.
Sævar segir að hann hafi fyrir hönd stjórnendanna, væntanlega Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar, fylgst með umræðunni um stöðina og forsvarsmenn hennar undanfarið. „Má með sanni segja að sú umræða er komin út fyrir öll velsæmismörk.“ Það eigi ekki að líðast í lýðræðisríki að „fólk þurfi að sitja undir persónulegum árásum á opinberum vettvangi eins og internetinu og þurfa að þola særandi og ærumeiðandi ummæli ítrekað.“
Þá segir hann að umræðan einkennist á köflum af eineltistilburðum.
Í pistlinum segir Sævar líka: „Eitt er að vera ósammála um málefni og hafa ólíkar skoðanir, það er eðlilegt og nauðsynlegt í lýðræðisríki og grundvöllur þess að hægt sé að eiga rökræn skoðanaskipti. En það er annað mál að úthrópa fólki fyrir skoðanir sínar, slíkt á sér engan stað í lýðræðislegri umræðu. Það á vitaskuld að bera virðingu fyrir skoðunum fólks, þótt þær kunni að vera ólíkar, og sé maður ósammála þá mætir maður þeim með málefnalegir gagnrýni og rökum. Það er ekki boðlegt í lýðræðislegri umræðu að ráðast með óvægnum og meiðandi hætti á persónu þess sem hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur, þaðan af síður að gera öðrum upp skoðanir.“
Sævar Þór segir að það hafi tíðkast að fela sig á bak við tjáningarfrelsið eins og það feli í sér einhvern rétt til þess að segja hvað sem er án ábyrgðar. „Það gleymist aftur á móti að frelsi fylgir ábyrgð“ segir hann.
Útvarp Saga hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið, ekki síst eftir skoðanakönnun á vefsíðu miðilsins þar sem spurt var hvort viðkomandi treysti múslimum. Reglulega er rætt um innflytjendamál á stöðinni. Í kjölfar þess óskuðu bæði Bubbi Morthens og hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir eftir því að útvarpsstöðinni yrði meinað að spila tónlist þeirra vegna þess sem þau sögðu hatursáróður. Þetta tók Arnþrúður óstinnt upp. Útvarp Saga setti svo inn nýja könnun á síðuna þar sem spurt var hvort fólk treysti Bubba.
Ekki kemur fram í grein Sævars hverja forsvarsmenn Útvarps Sögu hyggjast sækja til saka.