Orðaskak Páls Magnússonar, fyrrum útvarpsstjóra RÚV, og Magnúsar Geirs Þórðarsonar, núverandi útvarpsstjóra, um ágæti niðurskurðaraðgerða sem gripið var til hjá RÚV og almennt um fjárhagsstöðu félagsins heldur áfram í Morgunblaðinu í dag. Páll hóf þessa lotu í þættinum Eyjunni á Stöð 2 á sunnudag þar sem hann sagði að niðurskurðaraðgerðir sem hann hrinti í framkvæmd í nóvember 2013 hefðu miðað að því að fækka ársstörfum hjá RÚV um 60 á tólf mánuðum. Ef nýir stjórnendur hefði fylgt þessari áætlun væri rekstur RÚV kominn í jafnvægi og farinn að skila hagnaði. „Ég leyfi mér að efast um það, ætli það sé ekki nær 20 ársverkum," sagði Páll.
Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri, skrifaði grein í síðustu viku þar sem hann gagnrýndi nýja stjórnendur RÚV harðlega.
Magnús Geir svarar þessum aðfinnslum í Morgunblaðinu í dag og segir að starfsmönnum hafi fækkað um 61 frá september 2013 og til loka síðasta ár. Um sé að ræða samtals 36 stöðugildi auk þess sem verktökum hafi verið fækkað um 41. „Þáverandi stjórnendur fengu umboð til að ganga til aðgerða samkvæmt eigin áætlun sem þeir og gerðu í nóvember 2013. Þeirra markmið var að þær aðgerðir skiluðu hagræðingu upp á 500 milljónir króna. Ljóst má vera að aðgerðirnar skiluðu ekki því sem að var stefnt en að margra mati var undirbúningi ábótavant og þær illa ígrundaðar. Hins vegar var hagrætt umtalsvert til viðbótar eftir að ný framkvæmdastjórn tók til starfa síðastliðið vor og enn er unnið að því að leiða Ríkisútvarpið inn í bjartari tíma."
Kjarninn birti úttekt PwC
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu RÚV í fréttaskýringu í síðustu viku og birti meðal annars úttekt PwC á fjárhagsstöðu félagins frá því í júlí. Sú úttekt hafði aldrei áður komið fyrir sjónir almennings. Í niðurlagi þeirrar skýringar segir: „Það er rétt hjá nýjum stjórnendum RÚV að þeir muni þurfa að skera niður, en það er afar matskennt hvort sá niðurskurður ógni lögbundnu hlutverki RÚV. Það er rétt hjá fyrrum stjórnendum að þeir ráku félagið nánast á núlli utan fjármagnsgjalda árum saman en ómögulegt að segja til um hvort niðurskurðaraðgerðir þeirra frá því í nóvember 2013 hefðu skilað þeirri hagræðingu sem hún átti, þar sem þeir fengu aldrei að fylgja þeim almennilega úr hlaði.
Það er rétt hjá stjórnarliðum að framlög til RÚV hafi aldrei verið hærri í krónum talið og það er rétt hjá gagnrýnendum þeirra að þau hafa dregist saman að raungildi frá árinu 2007.
Það er þó ljóst að það verður alveg hægt að reka RÚV áfram, þótt að skera verði töluvert niður. Félagið mun fá tæpa sex milljarða króna, að meðtöldum auglýsingatekjum, á þessu rekstrarári til að spila úr. Fæstir fjölmiðlar myndu slá hendinni á móti slíkri summu."