Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segist vona að Alþingi hlusti á vilja þjóðar sinnar og fallið verði frá fyrirhugaðri lækkun á útvarpsgjaldi. Lækkunin muni leiða til stórfelldra breytinga á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins (RÚV) með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafa sést hjá félaginu. Það megi ekki gerast. Þetta kemur fram í stöðufærslu á Facebook sem Magnús Geir skrifaði fyrir skemmstu.
Atkvæðagreiðsla fer fram í dag
Í dag fer fram atkvæðagreiðsla á Alþingi um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem gerir meðal annars ráð fyrir lækkun á útvarpsgjaldinu.
Stjórn RÚV mótmælti þeim áformum harðlega með áskorun í byrjun síðustu viku þar sem sagði meðal annars: „Nú stendur til að útvarpsgjaldið lækki um áramótin úr 19.400 kr niður í 17.800 kr og svo að útvarpsgjaldið lækki aftur að ári niður í 16.400 kr. Gangi þessar fyrirætlanir eftir blasir við stórfelld breyting á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafa sést hjá félaginu. Augljóst má vera að sú þjónusta sem Ríkisútvarpið veitir tæki stakkaskiptum við þessa breytingu með samdrætti á öllum sviðum. Þá er ljóst að áætlanir um úrbætur á tilteknum þáttum í starfseminni eru óframkvæmanlegar en nýir stjórnendur og stjórn hafa hug á að efla þjónustu við landsbyggðina, bjarga efni í Gullkistu Ríkisútvarpsins og gera aðgengilegt þjóðinni, efla framboð á vönduðu barnaefni á íslensku, leggja aukna áherslu á innlenda framleiðslu og bæta dreifikerfið um land allt.“