Kostnaður vegna gerðar Vaðlaheiðarganga er talinn fara 1.500 milljónir fram úr áætlun. Þetta er mat stjórnar Vaðlaheiðarganga í svari við fyrirspurn fjárlaganefndar Alþingis, en það kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ríkið lánaði Vaðlaheiðargöngum 8.700 milljónir króna á 3,7 prósenta verðtryggðum vöxtum, og það fé átti að duga fyrir stofnkostnaði. Umframkostnaðurinn er orðinn 900 milljónum hærri en allt eigið fé félagsins og ef fer sem horfir mun lánið ekki duga.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, segir að kostnaðurinn fari líklega 14 prósent fram úr áætlun og þá þurfi aukið fé til að klára. „Stjórn fyrirtækisins á þó eftir að fara betur yfir málin og mun skila endurbættri rekstraráætlun í haust og þá mun staðan skýrast betur,“ segir Guðlaugur Þór við Morgunblaðið.
Hann segir alveg ljóst að ekki hafi verið vandað til verka við undirbúning gangnanna af hálfu stjórnvalda. Gagnrýni hafi komið fram en ekki hafið verið hlustað. Nú sé komið í ljós að gagnrýnin hafi verið réttmæt.
Þessi aukni kostnaður er kominn til vegna vatnsleka í báðum endum ganganna, Eyjafjarðar- og Fnjóskadalsmegin. Vinna hófst á ný í lok maí eftir langt stopp vegna vatnsleka og erfitt er að segja til um verklok að sögn stjórnarinnar.