Svanberg Hreinsson varaþingmaður Flokks fólksins segir að hann hafi ekki valið sér það hlutskipti að verða öryrki með öllu sem því fylgir. „Nei. Ef ég hefði haft val þá hefði ég valið mér að vera heill heilsu, laus við verki og vanlíðan og því megið þið háttvirtir alþingismenn trúa.“
Þetta sagði hann undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Hann fór lítillega yfir stöðuna í efnahagsmálum og benti á að greiningardeild Íslandsbanka spáði 8,4 prósent verðbólgu í júnímánuði. „Verðbólga síðustu 12 mánaða mældist í maí síðastliðnum 7,6 prósent og hefur ekki mælst svo mikil frá því í mars árið 2010. Gangi spá bankans eftir væri um að ræða 1 prósent hækkun á vísitölu neysluverðs frá fyrri mánuði.“
Varaþingmaðurinn setti þetta í samhengi við sig sjálfan en hann greindi frá því að hann væri á leigumarkaði. Hann sagði að frá áramótum hefði húsaleigan hækkað um 10 prósent „en það þykir víst ekkert mikið og kannski bara ansi vel sloppið“.
„Samt sem áður er þetta umtalsverð fjárhæð fyrir mig því að ég er öryrki og um síðustu mánaðamót þá greiddi ég 62 prósent af ráðstöfunartekjum mínum í húsaleigu. Síðan greiddi ég 3,5 prósent af mínum tekjum til lífsnauðsynlegra lyfjakaupa. Sem sagt, 65,5 prósent í leigu og lyf. Þá á eftir að greiða fyrir hita og rafmagn og síma og ekki skal gleyma matarinnkaupunum,“ sagði hann.
Leiguverð sem hlutfall af launum aldrei mælst lægra
Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS kemur fram að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hafi farið lækkandi á föstu verðlagi frá því í byrjun árs. Nú sé leiguverðið orðið lægra en fyrir ári síðan og hafi það ekki mælst lægra að raunvirði síðan í ágústmánuði 2017.
„Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu í apríl sem hlutfall af launum er það lægsta sem mælst hefur en gögnin ná aftur til byrjun árs 2013. Hlutfallið náði hámarki í lok árs 2018 en mælist nú 15,6 prósent lægra en það gerði þá,“ segir í skýrslunni.
Gunnar Smári Egilsson framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins gagnrýnir meðal annars greiningu HMS í færslu á Facebook-síðu flokksins. Hann segir það magnað að opinberar stofnanir, sem ættu að verja hagsmuni fjöldans, skuli „teygja sig eftir framsetningu sem gefa á til kynna að allt sé normalt og horfi til enn betri vegar; þegar það sannanlega er ekki svo“.
„Þetta gera stofnanirnar af hlýðni við ráðherra sem beygja sig undir sína yfirboðara, þá sem eiga auðinn, og brjóta gegn hagsmunum almennings í öllum sínum verkum. Það er augljóst á Íslandi hver ræður. Það eru þau sem eiga auðinn. Ráðherrarnir eru bara sendlar þeirra,“ segir hann meðal annars.