Vaxandi pirrings virðist gæta innan Framsóknarflokksins í garð Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og þeirra Evróputilskipana sem Íslendingar verða að innleiða vegna veru sinnar í EES. Þessu er haldið fram í Fréttablaðinu. Þar er rætt við Frosta Sigurjónsson, þingmann Framsóknarflokksins og formann efnahags- og viðskiptanefndar, sem segir að regluverk EES sé íþyngjandi og ekki allt Íslendingum í hag sem þaðan komi. Hann tekur dæmi um þrýsting um að lögleiða gengistryggð lán.
Í Fréttablaðinu er einnig haft eftir Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra að "reglugerðarfarganið sem berist í gegnum EES hafi leng verið eitur í beinum framsóknarmanna og annarra. Hún veltir því fyrir sér hvort ekki megi
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra.
nota mildara orðalaga við þýðingu Evróputilskipana. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að í báðum stjórnarflokkunum séu mjög miklar áhyggjur af fjöldi þeirra tilskipana sem Alþingi berst til samþykktar.
Á fundi sem Framsóknarflokkurinn hélt á laugardag lýstu nokkrir fundarmenn yfir efasemdum um EES-aðild Íslands.
Vill líka leggjast yfir Schengen
Frosti telur einnig að það þurfi að leggjast yfir hvort aðild Íslands að Schengen-samstarfinu, sem átti að afnema landamæraeftirlit á meðal aðildarríkja þess þegar samkomulag um það gert, sé til góðs eða ekki.
Til að mynda hafi ekki tekist að efna loforð um ferðalög án vegabréfs og spyrja þurfi sig að því af hverju Bretland kjósi að vera utan Schengen að hluta. Hann segist geta hugsað sér að beita sér fyrir endurmati á aðild að EES og Schengen. Meðal annars ætti að meta hvort EES-samningurinn væri besta formið á samstarfi við þau ríki sem eru í Evrópusambandinu og vísar í önnur samstarfsform eins og fríverslunarsamninga sem annan möguleika.
EES-samningurinn gæti komist í uppnám
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að viðræður Íslands, Noregs og Liechtenstein, ríkjanna þriggja sem eru aðilar að EES-samningnum, við Evrópusambandið vegna greiðslna í Þróunarsjóð EFTA hafi enn ekki skilað neinum árangri.
Greiðslurnar eru oft kallaðar aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópu, það gjald sem EES-löndin þrjú greiða fyrir aukaaðild sína að þessum stærsta útflutningsmarkaði sínum án þess að vera fullgildir meðlimir Evrópusambandsins.
Frá árinu 1994, þegar EES-samningurinn gekk í gildi, hefur þurft að endursemja um þennan aðgöngumiða á fimm ára fresti. Síðasta samkomulag rann út 30. apríl 2014 og því má segja að samningar hafi verið lausir í tæpt ár. Ástæðan: Evrópusambandið hefur farið fram á allt að þriðjungshækkun á framlögum í sjóðinn.
Miðað við þær kröfur myndi Ísland þurfa að greiða um 6,5 milljarða króna í sjóðinn næstu fimm árin, en á tímabilinu 2009-2014 greiddum við 4,9 milljarða króna.
Miðað við þær kröfur myndi Ísland þurfa að greiða um 6,5 milljarða króna í sjóðinn næstu fimm árin, en á tímabilinu 2009-2014 greiddum við 4,9 milljarða króna. Ekkert EFTA-ríkjanna þriggja sem greiða í sjóðinn eru tilbúin til að ganga að þessum kröfum og taka á sig hækkanir af þessari stærðargráðu. Og Evrópusambandið, að minnsta kosti enn sem komið er, vill ekki gefa neitt eftir.
Vaxandi pirringur framsóknarmanna í garð samningsins er athyglisverður í þessu sambandi, enda framsóknarmaður sem situr í utanríkisráðuneytinu sem leiðir viðræðurnar, Gunnar Bragi Sveinsson. Takist ekki að semja um framlög í Þróunarsjóð EFTA gæti EES-samningurinn verið í uppnámi.