Björgunarsveitir á Suður- og Suðvesturlandi hafa lokið verkefnum sínum í bili, en veður hefur gengið töluvert niður á Suðvesturhorni landsins síðasta klukkutímann eða svo.
Dagurinn hefur verið erilsamur hjá björgunarsveitarmönnum í dag. Fyrstu hjálparbeiðnirnar fóru að streyma inn í kringum hádegið, að því er fram kemur í frétt Landsbjargar. Flest verkefnin voru á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hátt í sextíu björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum, og á Suðurnesjum, þar sem þrjátíu björgunarsveitarmenn hafa sinnt útköllum í dag.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Kjarnann að björgunarsveitarmenn hafi verið sendir heim til að hvíla sig og nærast, en eins og fram hefur komið er von á miklu óveðri síðar í kvöld. Hún segir á annað hundrað björgunarsveitarmenn í viðbragðsstöðu vegna veðursins sem sé í vændum.
Verkefni björgunarsveitanna í dag hafa verið af ýmsum toga, meðal annars vegna lausra þakplatna og klæðninga, fjúkandi girðinga og sorptunna, og þá hafa gluggar brotnað og hurðar fokið upp. Þá hafa björgunarsveitarmenn þurft að sinna útköllum þar sem fjúkandi trampólín koma við sögu, þrátt fyrir fjölda viðvaranna um að fólk hugi sérstaklega að því að festa þau niður.
Að sögn upplýsinga- og kynningarfulltrúa Landsbjargar hafa engin stór atvik komið upp til þessa.