Álögð veiðigjöld á næsta fiskveiðiári verða 9,6 milljarðar og hækka um 12 prósent, eða úr um 8,5 milljörðum frá yfirstandandi fiskveiðiári. Meirihluti atvinnuveganefndar samþykkti á fundi sínum í morgun tillögur um hækkun veiðigjalda. Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, segir hækkunina vera í samræmi við almennan afkomubata í greininni.
Fiskveiðiárið hefst 1. september. Veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2013 til 2014 voru 9,2 milljarðar króna og árið áður voru þau 12,8 milljarðar króna. Frumvarpið sem um ræður nú var lagt fram af Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra í apríl síðastliðnum.
Í samtali við Kjarnann segir Jón að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á álögðum veiðigjöldum eftir útgerðarflokkum. Helsta vandamál við álagningu veiðigjalda sé skortur á nýlegum upplýsingum á afkomu útgerða. Vinna nefndarinnar sýni að hún eigi í erfiðleikum með að fá góðar upplýsingar í nútíma til að vinna áætlanir, þannig að gjöldin haldist í samhengi við afkomu greinarinnar bæði milli ára og milli mismunandi útgerðarflokka. „Við erum því að sækja með þessu frumvarpi heimildir til frekari gagnaöflunar í gegnum skattskýrslur þessara fyrirtækja. Heimildir sem þessar hafa ekki legið fyrir og hefur vantað við þessa vinnu síðustu sex til sjö ár. Það er viðmið sem við þurfum að hafa til að geta stundað álagningu veiðigjalda,“ segir Jón og vísar til þess að þegar veiðigjöld eru ákveðin þá liggja ekki fyrir nýjustu afkomutölur heldur.
Spurður um framhald málsins segir Jón að það muni fá sína umræðu í þinginu en frumvarpið fer nú í 2. umræðu. „Það kemur í ljóst hvort þetta veðri niðurstaðan eða frekari breytingar verði gerðar á málinu. En þessar breytingar sem við gerum eru gerðar eftir ítarlega yfirlegu,“ segir Jón.