Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lét hafa eftir sér 26. júní síðastliðinn að flóttamanna- og innflytjendavandinn sem nú væri á borði stjórnmálamanna, ekki síst tíðar ferðir fólks yfir Miðjarðarhafið sem leitar betra lífs í Evrópu, væri langsamlega stærsta mál sem hún hefði staðið frammi fyrir í sinni tíð sem leiðtogi Þýskalands og þátttakandi í stjórnmálasamvinnu Evrópu. Ekki efnahagsvandi Grikkja, sem á þessum tíma var oftast nær í fyrirsögnum fjölmiðla, ekki skuldavandi þjóðríkja Evrópu, ekki neikvæðar hagtölur. Flóttamanna- og innflytjendavandinn er í hennar huga stærsta málið.
Í yfirlýsingum sem þessum er mikill þungi og ljóst að allar þjóðir Evrópu verða sameiginlega að reyna að leysa þetta risastóra mannúðarmál, eða í það minnsta að reyna að hjálpa þeim mörg hundruð þúsund flóttamönnum sem leita til Evrópu úr skelfilegum aðstæðum í stríðshrjáðum löndum, þessa dagana.
Ísland getur gert mun meira en það hefur þegar gert, og ætti að gera það. En allt sem lagt er til með frumkvæði er þakkarvert. Það var gott hjá Akureyrarbæ að hafa frumkvæði að því að bjóðast til að taka móti hluta þeirra flóttamanna sem stjórnvöld hafa samþykkt að taka á móti. Árið 2003 tók bærinn á móti 24 flóttamönnum frá stríðshrjáðum svæðum fyrrum Júgóslavíu og gekk sú vinna vel. Allar fjölskyldurnar sem fluttu til Akureyrar, í leit að betra lífi, búa enn á Akureyri og gekk stuðningsvinna vel.
Vel gert!