Velta í fasteignaviðskiptum á árinu 2014 nam tæplega 300 milljörðum króna á landinu öllu, og um 240 milljörðum á höfuðborgarsvæðinu. Sé árið 2014 borið saman við árið 2013 þá jókst veltan um 20 prósent á landinu öllu um 23 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta má lesa út úr gögnum Þjóðskrár Íslands um þróun á fasteignamarkaði. Á árinu 2013 var heildarvelta í fasteignaviðskiptum ríflega 250 milljarðar króna í 8.400 þinglýstum viðskiptasamningum. Á árinu 2014 nam veltan um 300 milljörðum, eins og áður sagði, í 9.400 viðskiptasamningum. Samningum fjölgaði því um í kringum ellefu prósent.
Umsvif hafa aukist á fasteignamarkaði að undanförnu, og eru flestar spár sérfræðinga á þá leið að fasteignaverð muni hækka umtalsvert á næstu misserum. Þannig spáir hagfræðideild Landsbankans 24 prósent hækkun á fasteignaverði á næstu þremur árum, 9,5 prósent í ár, 6,5 prósent á næsta ári og 6,2 prósent árið 2017.