Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,7 prósent. Það þýðir að verðbólgan nú er minni en hún mældist í júlí, þegar hún mældist 9,9 prósent. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Hagstofu Íslands um vísitölu neysluverðs sem birt var í dag.
Þetta er í fyrsta sinn síðan í júní 2021 sem tólf mánaða verðbólga lækkar milli mánaða.
Vísitalan hækkaði þó í ágúst, alls um 0,29 prósent frá fyrra mánuði. Sumarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 3,5 prósent og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 6,4 prósent.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 0,9 prósent verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 8,7 prósent og verð á bensíni og olíum lækkaði um 3,9 prósent.
Verðbólguhorfur fari auk þess versnandi vegna töluvert kröftugri vaxtar á innlendri eftirspurn en búist var við í vor og hægari hjöðnun á verðhækkunum á húsnæðisverði, en það er enn að hækka þótt hægt hafi á. Þar skipta miklar vaxtahækkanir Seðlabankans og þrengri lánaskilyrði sem hann hefur sett lykilmáli. Það er erfiðara, og minna eftirsóknarvert, að taka húsnæðislán nú en fyrir nokkrum mánuðum síðan.
Helsti drifkraftur verðbólgunnar hefur nefnilega verið gríðarleg hækkun á húsnæðisverði, en á höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um 25,5 prósent á einu ári.
Það er þó margt annað sem hefur hækkað. Verð á almennri þjónustu hefur hækkað um 8,5 prósent á einu ári, og vega miklar hækkanir á fluggjöldum þar þyngst. Innlendar vörur hafa hækkað um 8,7 prósent á sama tíma, en þar vegur verðhækkun á matvöru þyngst. Eldsneytisverð hækkaði líka skarpt á fyrri hluta ársins, eða alls um 41 prósent milli ára. Það hefur þó tekið að lækka undanfarnar vikur. Það hefur hrávöruverð á alþjóðamörkuðum líka gert.
Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 8,4 prósent, eða minna en ofangreindir útgjaldaliðir. Á mannamáli þýðir það að ef fólk ætlaði að eyða því sama, eða meira, og það gerði fyrir ári þá þarf það annað hvort að ganga á sparnað eða fá eyðsluna lánaða.