Verðbólga á Íslandi mælist 1,9 prósent í september og lækkar um 0,3 prósentustig frá fyrri mánuði, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Án húsnæðis mælist verðbólgan, þ.e. almenn hækkun verðlags síðustu tólf mánuði, 0,5 prósent.
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,39% frá fyrri mánuði og án húsnæðis nemur lækkkunin 0,62%. Milli mánaða lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda um 24,6 prósent, sumarútsölur gengu að mestu til baka og hækkaði verð á fötum og skóm um 4,4 prósent en verð á bensíni og olíu lækkaði um 5,3 prósent.
Er þetta 20. mánuðurinn í röð sem verðbólgan mælist undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans, eða frá því í febrúar 2014. Í grafinu hér að neðan má sjá þróunina frá því í september á síðasta ári.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í september 2015, sem er 430,6 stig, gildir til verðtryggingar í nóvember 2015. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 8.502 stig fyrir nóvember 2015.