Vísitala neysluverðs hækkar um 0,67 prósent frá septembermánuði og mælist tólf mánaða verðbólga á Íslandi því 9,4 prósent, eftir að hafa mælst 9,3 prósent í síðasta mánuði, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni í dag.
Þetta er í fyrsta sinn frá því í júlí sem verðbólgutölurnar hækka, en þá mældist tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs 9,9 prósent. Síðan þá hefur tólf mánaða verðbólga þokast niður á við.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru helstu áhrifaþættir hækkunarinnar á vísitölu neysluverðs í október þeir að verð á matvælum hækkaði um 1,6 prósent í mánuðinum. Munaði þar að sögn Hagstofunnar mestu um lambakjöt, sem hækkaði um 16,2 prósent á milli mánaða. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,8 prósent.
Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti nokkuð skarpt undanfarið til að reyna að vinna gegn verðbólgu. Þeir eru nú komnir í 5,75 prósent en voru 0,75 prósent í maí í fyrra. Í Peningamálum Seðlabankans, sem birt voru í ágúst, kom fram að bankinn reiknaði með því að verðbólgan yrði komin í 10,8 prósent fyrir árslok.
Síðasta vaxtahækkun bankans var í upphafi þessa mánaðar, en þá voru stýrivextir færðir upp um 0,25 prósentustig. Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar sem þá var birt sagði að vísbendingar væru um að vaxtahækkanir undanfarin misseri hefðu hægt á vexti almennrar eftirspurnar og umsvifum á húsnæðismarkaði frá því að nefndin kom síðast saman í ágúst.
„Undirliggjandi verðbólga jókst hins vegar milli funda. Þá eru vísbendingar um að verðbólguvæntingar séu farnar að lækka á ný þótt þær séu enn yfir verðbólgumarkmiði bankans,“ sagði í yfirlýsingu nefndarinnar, sem sagðist áfram ætla að tryggja að taumhald peningastefnunnar væri nægjanlegt til að verbólga hjaðnaði í markmið innan ásættanlegs tíma.
„Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum,“ sagði nefndin.
Næsta vaxtaákvörðun bankans er 23. nóvember.