Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,66 prósent milli mánaða. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 9,6 prósent en hún mældist 9,3 prósent í síðasta mánuði. Hún hefur einungis tvívegis mælst meiri en nú frá haustmánuðum 2009, en það var í júlí og ágúst í sumar þegar hún mældist 9,7 til 9,9 prósent.
Tólf mánaða verðbólga var 5,7 prósent í janúar og hefur því aukist verulega það sem af er ári.
Samkvæmt tilkynningu Hagstofu Íslands voru helstu ástæður þess að vísitalan hækkaði á milli október og nóvember þær að verð á matvörum hækkaði um 0,6 prósent og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 19,4 prósent.
Stýrivextir hækkaðir tíu sinnum í röð
Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti sína í í lok nóvember upp í sex prósent. Þetta var í tíunda sinn í röð sem Seðlabankinn hækkaði vexti, en þeir voru 0,75 prósent í maí í fyrra. Fyrir vikið eru íbúðalánavextir hærri en þeir hafa verið í tólf ár, eða frá árinu 2010, skömmu eftir bankahrunið þegar enn var verið að endurreisa föllnu bankana og íslenskt atvinnulíf.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét svo hafa eftir sér í kjölfar ákvörðunarinnar að mikil aukning í einkaneyslu væri að koma niður á gengi krónunnar. Það auki innflutta verðbólgu. „Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri,“ sagði Ásgeir og bætti svo við að Seðlabankinn gæti„ ekki fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum.“
Mikil áhrif á kjaraviðræður
Ákvörðun um stýrivaxtahækkun hafði mikil og neikvæð áhrif á yfirstandandi kjaraviðræður. hún leiddi meðal annars til þess að VR, stærsta stéttarfélag landsins, sleit viðræðum um tíma og lagt var upp í þá vegferð að reyna að ná skammtímasamningum, sem gilda út janúar 2024, í stað þess að semja til lengri tíma.
Tilgangur þess átti að vera að skapa betri aðstæður til samningsgerðar þegar verðbólgan hefur hjaðnað, en spár Seðlabankans gera ráð fyrir því að hún verði komin niður í 4,5 prósent á síðasta ársfjórðungi næsta árs.
Hún verður þó enn langt fram markmiði Seðlabankans, sem er 2,5 prósent verðbólga.
Skammtímasamningar hafa nú þegar náðst við 80 prósent starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Þeir voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta í atkvæðagreiðslum nú í desember. Enn er ósamið við fjórðung þeirra sem starfa á almennum markaði, og þar munar mestu um félagsmenn eflingar, og starfsmenn í opinbera geiranum.
Gríðarleg aukning á greiðslubyrði
Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hafa allskyns áhrif á daglegt líf fólks. Verð á nær öllum nauðsynjavörum hækkar vegna verðbólgunnar og afborganir af íbúðalánum stóraukast hjá mörgum samhliða vaxtahækkunum.
Kjarninn greindi frá því í nóvember að greiðslubyrði óverðtryggðs íbúðaláns með breytilegum vöxtum upp á 50 milljónir króna sé nú um 311.500 krónur, samkvæmt greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í maí í fyrra, áður en stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands hófst, var greiðslubyrði láns að sömu upphæð 188.500 krónur. Hún hefur því hækkað um 123 þúsund krónur á mánuði eða tæplega 1,5 milljónir króna á ári. Greiðslubyrðin hefur aukist um 65 prósent.