Í september síðastliðnum voru fluttar út vörur frá Ísland fyrir rúmlega 47,8 milljarða króna. Verðmæti innfluttra vara á sama tíma nam tæplega 54,3 milljörðum króna. Vöruskiptin voru því óhagstæð um 6,4 milljarða króna en í sama mánuði 2014 voru þau óhagstæð um tíu milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar í dag.
Á fyrstu níu mánuðum ársins voru fluttar út vörur fyrir alls 480,1 milljarð króna en inn fyrir 494,8 milljarða króna. Halli á vöruskiptum var því 14,7 milljarðar á þessu tímabili. Yfir sama tímabil 2014 nam hallinn 15,3 milljörðum króna.
Verðmæti útflutnings hefur aukist um 11,8 prósent milli ára, á gengi hvors árs, eða um 50,7 milljarða króna. Iðnaðarvörur voru 53,5 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 16,2 prósentum hærra en á sama tímabili 2014. Í frétt Hagstofunnar segir að ástæða sé helst vegna útflutnings á áli og álafurðum. Sjávarafurðir voru 41,9 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 12,1 prósenti hærra en á sama tíma í fyrra, einkum vegna útflutnings á fiskimjöli.
Verðmæti innflutnings er 50,1 milljarði hærra en á sama tíma í fyrra, eða 11,3 prósentum hærra. Er það helst vegna innflutnings á hrá- og rekstrarvöru og flugvéla en innflutningur á eldsneyti hefur dregist saman, segir í frétt Hagstofunnar.