Í minnisblaði sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lögðu fram á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis á mánudag kemur fram að áætlað útflutningsverðmæti sjávarafurða til Rússlands í ár nemi 37 milljörðum króna. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Það eru meiri verðmæti en áður var talið og mikil og töluverð aukning frá árinu 2014, þegar verðmæti útflutnings til Rússlands var um 29 milljarðar króna, eða fimm prósent útflutningsverðmæta Íslands á því ári.
Kjarninn greindi frá því í gær að Rússar hafi nú tekið ákvörðunn um að bæta löndum á lista sinn yfir lönd þaðan sem bannað er að flytja inn matvöru. Þetta tilkynntu þeir í gær. Aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, Arkady Dvorkovítsj, nefndi ekki löndin sem bætt verða á listann en sagði ákvörðun um það verða tekna í nánustu framtíð.
Interfax-fréttastofan sagði sjö lönd bætast á listann sem Rússar gerðu í ágúst í fyrra. Frá þessum löndum er Rússum bannað að flytja inn matvöru, þar með talið fisk og fiskiafurðir.
Sjö lönd hafa ákveðið að standa með Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Kanada í hertum viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi frá því að þær voru settar á í upphafi síðasta árs. Auk Íslands eru það Úkraína, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Georgía og Noregur. Af þessum löndum er aðeins Noregur nú þegar á bannlista Rússa.
Í Morgunblaðinu segir að allar líkur séu nú taldar á því að Rússar muni bæta Íslandi á lista yfir þau ríki sem þeir beita viðskiptabanni. Ekki sé þó víst hvort bannið muni hafa áhrif á makrílsölu Íslendinga til Rússlands. Blaðið vitnar í fréttastofuna Tass sem hefur eftir starfsmanni rússneska landbúnaðarráðuneytisins að enn sé óljóst hvort viðskiptabann við Ísland nái yfir "ákveðnar fisktegundir".
Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Hafrannsóknarstofnunar er heildarmagn makríls meira en nokkru sinni fyrr á Íslandsmiðum, eða frá því að athuganir hófust árið 2009. Frá þessu var greint í gær.