Verðtrygging er almennt ekki í andstöðu við tilskipun Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli Gunnars V. Engilsbertssonar gegn Íslandsbanka. Samkvæmt álitinu er því ekki bannað að setja skilmála um verðtryggingu í samninga. Landsdómstólum, í þessu tilfelli Hæstarétti Íslands, er eftirlátið að meta hvort samningsskilálar uppfylli skýrleikaskilyrði tilskipaninnar.
Hægt er að lesa álitið hér.
Málið er annað þeirra tveggja mála sem Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað til EFTA-dómstólsins er varða verðtrygginu. Í þessu máli, sem var tekið fyrir í apríl 2014, var tekist á um hvort verðtrygging sé ósanngjarn skilmáli í skilningi tilskipunar sem innleidd var í íslenska löggjöf frá Evrópusambandinu. Í málinu beindi héraðsdómur fimm spurningum til EFTA-dómstólsins og óskaði eftir ráðgefandi áliti.
Innan stjórnkerfisins og lögmannastéttarinnar var það nokkuð almenn skoðun að það yrði ólíklegt að EFTA-dómstóllinn myndi segja í áliti sínu að verðtryggingin sé ósanngjörn sem skilmáli. Það varð niðurstaðan. Þar er vísað í að samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins geti samningsskilmáli sem eigi sér stoð í landsrétti ekki verið ósanngjarn í eðli sínu. Og verðtrygging á sér stoð í íslenskum landsrétti. Í áliti EFTA-dómstólsins kemur fram að ekki er óheimilt að setja inn skilmála um verðtryggingu í lánasamninga. Íslenskum dómstólum er hins vegar eftirlátið að meta hvort samningsskilmálar í hverju máli fyrir sig séu nægilega skýrir til að uppfylla skýrleikaskilyrði tilskipunarinnar.
Stóru spurningunni enn ósvarað
EFTA-dómstóllinn á enn eftir að skila áliti sínu í hinu málinu sem varðar verðtryggingu. Það var flutt í júní. Í því var sömu fimm spurningunum beint til EFTA-dómstólsins en einni bætt við. Hún snýst tilskipun um hlutfallstölu kostnaðar. Á mannamáli þýðir það að þegar einhver er að taka lán þá á að koma fram hver kostnaður vegna lánsins verður. Í Evrópu myndi slík tala samanstanda af vöxtum og lántökugjaldi. Þegar íslensku bankarnir og Íbúðalánasjóður hafa verið að reikna þessa hlutfallstölu þá hefur verðtryggingin verið undanskilin, þrátt fyrir að hún hafi sannarlega áhrif á það hver kostnaður lánsins verður. Við útreikningu kostnaðar hefur einfaldlega bara verið miðað við að verðbólgan sé núll prósent.
Þessi tilskipun var innleidd í íslensk lög árið 1994 og árið 2004 voru fasteignalán felld undir hana. Þeir sem sækja málið vilja meina að frá þeim tíma hefði raunkostnaður vegna verðtryggingar átt að koma fram í hlutfallstölunni sem kynnt var lántakendum, en ekki að það yrði einungis miðað við að verðbólgan sé núll prósent. Bæði Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa tekið undir þessa röksemdafærslu.
Rökin fyrir því að miða við enga verðbólgu við útreikning á kostnað lána eru þau að þannig sé staðan skýrust. Verðbólga er þekkt fyrirbrigði á Íslandi og hún hefur sveiflast mikið í gegnum tíðina. Þeir sem hafa þessa skoðun segja þannig ómögulegt að spá fyrir um hana og betra sé að gera lántakanda einfaldlega grein fyrir því að verðbólga muni hafa áhrif á lánið, í stað þess að giska á hver hún verður á lánstímanum. Eðli verðtryggingar er auk þess þannig að laun og virði húsnæðis hækkar iðulega samhliða skuldum yfir lengri tíma vegna verðbólgu. Því sýni 0 prósent réttustu stöðuna. Þetta eru á meðal röksemda lögmanna íslenska ríkisins í málinu.
Lögum um neytendalán var breytt á Íslandi í fyrra. Samkvæmt nýju lögunum á hlutfallslegur kostnaður verðtryggðra lána ekki að miða lengur við núll prósent heldur ársverðbólgu síðustu 12 mánuði. Þessi breyting veldur málarekstri íslenska ríkisins töluverðum erfiðleikum, enda er breytingin í andstöðu við málarök og hagsmuni íslenska ríkisins.
Það sem aðskilur þessa spurningu frá hinum fimm er sú að niðurstaða EFTA-dómstólsins verður alltaf annað hvort: já, þið megið undanskilja verðbætur við útreikning hlutfallstölu, eða nei, þið megið það ekki.
Ef niðurstaðan verður sú að ekki megi miða við núll prósent við útreikning hennar, líkt og íslenska ríkið virðist raunar hafa þegar ákveðið með því að breyta lögum þannig að það er ekki lengur gert, þá mun Hæstiréttur Íslands þurfa að taka afstöðu til þess, samkvæmt gömlu lögunum um neytendalán. Nánar tiltekið 14. grein þeirra.
Hæstiréttur hefur þá tvo kosti: annaðhvort að horfa til fyrstu málsgreinar 14. greinar laganna eða þriðju málsgreinar hennar. Ef Hæstiréttur horfir til fyrstu málsgreinar verða öll verðtryggð neytendalán ólögmæt. Ef Hæstiréttur horfir til þriðju málsgreinar verða þau það ekki.