Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að ekki sé unnið að afnámi verðtryggingar í fjármálaráðuneytinu. Þar er hins vegar til skoðunar að lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána og stytta hámarkstíma þeirra.
Fréttablaðið greindi frá þessu í gær, en daginn áður hafði blaðið eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, að vinna fjármálaráðuneytis við afnám verðtryggingar gangi vel.
Jæja, þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti þar sem ráðherrarnir eru ekki alveg á sömu blaðsíðu, en fyrr má nú vera. Ummæli fjármálaráðherra eru mjög merkileg sérstaklega í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn setti afnám verðtryggingar á oddinn fyrir síðustu kosningar og sagði beinlínis að málið væri forsenda stjórnarsamstarfs.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þá nýkjörinn varaformaður Framsóknarflokksins, sagði til að mynda í viðtali á RÚV í febrúar árið 2013 að flokkurinn myndi ekki taka þátt í ríkisstjórn nema að tekið verði á verðtryggingunni. Sigurður Ingi var afdráttarlaus í viðtalinu við RÚV: „Við leggjum gríðarlega áherslu á að það sé mikilvægt að taka á þessum málum. Við teljum það mikilvægasta mál þjóðarinnar.“
Pæling dagsins: Hvað er eiginlega í gangi?