Tilgangur frumvarps um breytingar á gjaldeyrislögum sem lagt verður fram á þingi í kvöld er fyrst og fremst að stoppa upp í göt í fjármagnshöftunum sem Seðlabanki Íslands taldi að hægt væri að nýta sér til að sniðganga þau. Samkvæmt heimildum Kjarnans er slitabú stóru föllnu bankanna talin á meðal þeirra sem gætu nýtt sér umrædd göt. Viðmælendur Kjarnans segja að frumvarpið, sem var kynnt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd fyrr í dag, sé því ekki hluti af þeirri áætlun um skref í átt að losun hafta sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur boðað að verði kynnt í komandi viku.
Búist er því því að frumvarpið sem lagt verði fyrir í kvöld muni ekki mæta neinni mótstöðu stjórnarandstöðunnar. Því verði þingfundurinn, sem hefst klukkan 22, í styttra lagi.
Mikilvægt er að aðgerðir sem þessar, breytingar á gjaldeyrislögum, séu samþykktar og hrint í framkvæmd á degi þar sem markaðir eru lokaðir, enda geta þær haft áhrif á ýmsa fjármagnsmarkaði. Þess vegna er verið að ráðast í þessa framkvæmd á sunnudegi.