Garðar St. Ólafsson héraðsdómslögmaður, verjandi Gunnars Scheving Thorsteinssonar lögreglumanns, sem ákærður var í LÖKE-málinu svokallaða, hefur skrifað ríkissaksóknara bréf þar sem hann áréttar ítrekaðar beiðnir um að aðgang að öllum rannsóknargögnum málsins. Kjarninn hefur bréfið undir höndum, en það var sent embætti ríkissaksóknara í dag.
Ríkissaksóknari ákærði Gunnar Scheving á síðasta ári og sakaði hann um að hafa flett upp 45 konum í málaskrá lögreglu, svokölluðu LÖKE-kerfi, án þess að það tengdist störfum hans sem lögreglumaður. Þá var Gunnari sömuleiðis gefið að sök að hafa miðlað persónuupplýsingum sem áttu að fara leynt til þriðja aðila.
Ágallar á rannsókn leiddu til niðurfellingar
Veigamesti ákæruliður málsins, varðandi uppflettingarnar í málaskrá lögreglu, var felldur niður af ríkissaksóknara á dögunum eftir að í ljós komu verulegir annmarkar á rannsókn lögreglu. Rannsóknin var á forræði embættis ríkissaksóknara en unnin af lögreglunni á Suðurnesjum undir stjórn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, þáverandi aðstoðarlögreglustjóra.
Gunnar var sýknaður af síðari ákæruliðnum í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni, og hyggst sækja skaðabætur til íslenska ríkisins vegna rangra sakargifta. Gunnar hefur verið boðaður aftur til starfa hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Borinn röngum sökum
Í bréfinu sem hann sendi ríkissaksóknara í dag, krefst lögmaður Gunnars að öll rannsóknargögn málsins verði afhent tafarlaust. „Gögn um rannsókn þar sem málsmeðferð var ekki í samræmi við gildandi lagareglur og þar sem skjólstæðingur minn var borinn röngum sökum vegna þess að upplýsingar frá rannsakendum voru ekki sannleikanum samkvæmar eru mjög mikilvæg sönnunargögn fyrir skjólstæðing minn um þann órétt sem hann hefur verið beittur.“
Þá sakar lögmaður Gunnars Öldu Hrönn um að hafa borið rangar sakir á skjólstæðing sinn, bera ábyrgð á málinu og krefst þess að fá afhent öll gögn um samskipti hennar við embætti ríkissaksóknara. „Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um hvað embætti ríkissaksóknara vissi um afritun af einkasamræðum hans við trúnaðarvini og hvernig Alda Hrönn komst yfir illa fengin gögn,“ segir í bréfinu.
Vill fá gögnin sem hrundu málinu af stað
Lögmaður Gunnars hefur ítrekað óskað eftir að fá afhent kæra eða bréf þáverandi aðstoðarlögreglustjóra á Suðurnesjum til ríkissaksóknara dagsett 2. apríl 2014, sem og gögn sem hún sendi embættinu þann 31. mars sama ár, sem lágu til grundvallar rannsókn lögreglu á meintum brotum. „Fyrri afsakanir á borð við að þau væru týnd, saksóknari skyldi tölvugögnin ekki og ætlaði að fá þau túlkuð eða að krotað hafi verið á frumritin og ekki væri til afrit eru ekki boðlegar.“
Þá segir í bréfinu að ofangreind gögn séu mikilvæg sönnunargögn um mögulega refsiverða háttsemi Öldu Hrannar. „Hún veitti rangar upplýsingar sem leiddu til þess að saklaus maður sætti ákæru og líkur er á því að með bréfinu og Excel-gögnum sé hægt að sanna að það gerði hún vísvitandi, enda hafi hún haft réttar upplýsingar undir höndum allan tímann. Lögvarðir hagsmunir skjólstæðings míns af því að fá öll gögn um hvernig brotið var á honum í hendur eru mjög skýrir og embætti ríkissaksóknara getur ekki haft neina lögmæt ástæðu til að breiða yfir það hvernig rannsókn málsins hófst.“