Verjendur sakborninga í Aurum-málinu svokallaða hafa lagt fram beiðni þess efnis að tveir dómarar í málinu, þeir Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari og Sverrir Ólafsson meðdómari, verði boðaðir til skýrslutöku fyrir dómi, til að verjast ómerkingarkröfu Ríkissaksóknara á sýknudómi sem kveðinn var upp í málinu í júní.
Verjendur Lárusar Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, athafnamanns, og Bjarna Jóhannessonar, fyrrverandi viðskiptastjóra hjá Glitni, lögðu fram beiðnina fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Ríkissaksóknari hefur mótmælt kröfu verjendanna, en málflutningur um hana fer fram fyrir dómi þann 11. mars næstkomandi.
Ríkissaksóknari fer fram á ómerkingu sökum vanhæfis
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, hefur krafist þess að Hæstiréttur ómerki sýknudómana yfir sakborningum í Aurum-málinu og því verði vísað aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar. Embætti Ríkissaksóknari byggir kröfu sína á meintu vanhæfi Sverris Ólafssonar prófessors, sem var sérfróður meðdómari í Aurum-málinu, þar sem hann er bróðir Ólafs Ólafssonar, sem nýlega hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Hæstarétti fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða.
Þá byggir krafa ríkissaksóknara ekki síður á ummælum sem Sverrir lét falla í fjölmiðlum um embætti sérstaks saksóknara eftir að dómur í Héraðsdómi var upp kveðinn. Saksóknari telur ummælin gefa ríka ástæðu til að draga óhlutdrægni Sverris í efa. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að embættinu hafi ekki verið kunnugt um ættartengsl Sverris og Ólafs meðan málið var til meðferðar í héraðsdómi og hefur gert athugasemdir við að dómari hafi ekki upplýst um ættartengslin. Ólafur hefur sagt að allar líkur séu á að embætti sérstaks saksóknara hefði þá gert ahugasemd við skipan Sverris. Sverrir gerði Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara grein fyrir tenslum sínum við Ólaf Ólafsson, en ekki sérstökum saksóknara.
Fór hörðum orðum um sérstakan saksóknara
Umrædd ummæli Sverris Ólafssonar, lét hann falla í frétt hjá RÚV þann 9. júní síðastliðinn, þar sem hann sakaði sérstakan saksóknara um að reyna að veikja sýknudóminn í Aurum-málinu með því að draga hæfi sitt í efa. Í frétt RÚV sagði Sverrir: „Ég trúi því ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“ Þá má geta þess að Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, hefur tekið undir orð Sverris í fjölmiðlum, um að hann trúi ekki að sérstakur saksóknari hafi ekki verið kunnugt um ættartengsl mannanna.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hyggjast verjendur sakborninganna í Aurum málinu sýna fram á með umbeðnum skýrslutökum að sérstökum saksóknara hafi verið kunnugt um bræðratengsl Sverris Ólafssonar og Ólafs Ólafssonar, þrátt fyrir fullyrðingar embættisins um hið gagnstæða. Þá vilja verjendurnir fá staðfest fyrir dómi að Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara og dómsformanni hafi sömuleiðis verið kunnugt um ættartengsl mannanna og talið þau ekki hafa áhrif á hæfi Sverris til að gegna stöðu meðdómara í Aurum-málinu.
Beiðni verjendanna á sér fordæmi, en í Baugsmálinu svokallaða fóru lögmenninnirnir Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, fram á að Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknara í málinu, og dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur yrðu kallaðir fyrir dóm sem vitni vegna málflutnings um kröfu Jóns Ásgeirs og Tryggva að málinu gegn þeim yrði vísað frá dómi. Þeirri beiðni var hafnað.