Á forsíðu Fréttablaðsins í dag birtist frétt undir fyrirsögninni: „260 milljónir í laun verjenda frá ríkinu.“ Þar kemur fram að ríkissjóður hafi greitt tæpar 260 milljónir króna í þóknanir til verjenda í dómsmálum sem embætti sérstaks saksóknara hefur rekið fyrir dómstólum á árinu vegna svokallaðra hrunmála. Kjarninn birti frétt byggða á fréttaflutningi Fréttablaðsins, og vill af því tilefni árétta eftirfarandi.
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins er ekki tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af upphæðinni. Þetta staðfesti blaðamaðurinn sem skrifaður er fyrir fréttinni í samtali við Kjarnann.
Samkvæmt fréttinni námu greiðslur ríkissjóðs til verjenda í hrunmálum 256,9 milljónum króna á árinu. Í samantekt Fréttablaðsins, sem byggði á ákvörðunum dómstóla í stærstu efnahagsbrotadómum ársins í héraðsdómi og Hæstarétti Íslands, hefur verjendum alls verið dæmdar þóknanir fyrir röskar 350 milljónir króna. Þar af hafi sakborningar verið dæmdir til að greiða tæpar 98 milljónir í laun til verjenda sinna.
Í dómsorði er upphæð sem dæmd er verjendum ekki undanþegin 25,5 prósenta virðisaukaskatti. Vissulega rennur öll upphæðin sem dæmd er til viðkomandi lögmanns, en honum, eða eftir atvikum lögmannsstofunni sem hann starfar hjá, ber lagaleg skylda til að skila virðisaukaskatti aftur til ríkissjóðs.
Miðað við lauslega útreikninga Kjarnans þýðir þetta að verjendur sakborninga í hrunmálum fá í raun um 204,7 milljónir í sinn hlut vegna sinna starfa á árinu. Þannig skila þeir liðlega 52,2 milljónum króna, af þeim 256,9 milljónum sem þeim hafa verið dæmdar á árinu, aftur til ríkissjóðs.