Félagar í SFR og í Sjúkraliðafélagi Íslands hafa samþykkt verkfallsboðun og verkföll þeirra munu hefjast 15. október ef ekki hefur verið samið fyrir þann tíma.
SFR liðar samþykktu verkföll með rúmlega 85 prósentum atkvæða og sjúkraliðar með tæplega 91 prósentum atkvæða. Kjörsókn var tæp 64 prósent hjá SFR og tæp 70 prósent hjá sjúkraliðum.
Ef af verkföllunum verður hjá SFR verða þau í tveggja sólarhringa lotum í mánuð, og frá 16. nóvember munu hefjast algjör verkföll hjá öllum ríkisstofnunum. Á Landspítalanum, hjá ríkisskattstjóra, öllum sýslumannsembættum landsins og tollstjóraembættinu hefjast hins vegar ótímabundnar vinnustöðvanir strax 15. október.
Hjá sjúkraliðum verða verkföllin í sértækum vinnustöðvunum á Landspítalanum, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja milli 8 og 16 á daginn.
Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu félaganna við ríkið.