Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hefur gengið frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um að fresta fyrirhuguðum verkföllum um sex daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SGS Ljóst er að viðræður eru hafnar af fullum þunga og það er mat samninganefndarinnar að gefinn skuli tími til að reyna til þrautar um að samningar náist. Kröfugerð Starfsgreinasambandsins er sem fyrr grundvöllur áframhaldandi viðræðna.
Frestun verkfalla verður sem hér segir:
Verkfalli 28. og 29. maí er frestað til 3. og 4. júní.
Ótímabundnu verkfalli 6. júní er frestað til 12. júní.
Tilkynning SGS kemur í kjölfar þess að forsvarsmenn samninganefnda VR, LÍV, Flóabandalagsins, StéttVest og Samtaka atvinnulífsins náðu á mánudag samkomulagi um að fresta verkfallsaðgerðum sem áttu að hefjast á morgun, þann 28. maí. Aðgerðunum var frestað um fimm sólarhringa.
Daginn efir birti VR tilkynningu þar sem komu fram helstu efnisatriði draga þess kjarasamnings sem verið er að ræða um. Samkvæmt honum hækka lægstu laun upp í 245 þúsund strax og í 300 þúsund krónur á mánuði frá og með maí 2018. Lægstu taxtar hjá VR munu hækka um 31,3 prósent á samningstímanum og vonast er til að skrifað verði undir kjarasamninganna á föstudag. Ekki kemur fram í tilkynningu SGS hvaða meginlínur séu í þeim viðræðum sem nú standa yfir.
Ef ekki semst um lausn á kjaradeilum á vinnumarkaði munu tugþúsundir fara í allsherjarverkfall 6. júní næstkomandi.