Starfsgreinasambandið hefur boðað til umfangsmikilla verkfallsaðgerða sem hefjast 10. apríl næstkomandi, ef Samtök atvinnulífsins verða ekki við kröfum um hækkun lægstu launa upp í 300 þúsund krónur. Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að full alvara sé að baki fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum, en vonar að ekki þurfi að koma til þeirra. „Það er full alvara á bakvið þær kröfur sem við höfum sett fram en auðvitað vonumst við til að hægt verði að afstýra verkfalli,“ segir Björn.
Aðgerðirnar fyrirhuguðu taka til um 7500 manns sem starfa á matvælasviði (fiskvinnslu, kjötvinnslu og í sláturhúsum) og í þjónustugreinum (ferðaþjónustu, ræstingum o.fl.), og tæplega 3000 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, iðnaði og flutningsgreinum.
Starfsgreinasamband Íslands fer með samningsumboð fyrir um ríflega tíu þúsund manns í sextán aðildarfélögum. Viðræðum sambandsins við Samtök atvinnulífsins var slitið fyrir sléttri viku síðan en mikið skildi þá á milli samningsaðila og ekkert þokaðist í samningsátt, að því er segir í tilkynningu. Samtök atvinnulífsins hafið haldið fast við þá stefnu að laun almenns verkafólks hækki ekki um meira en 3-4%. „Í krónum talið þýðir það hækkun grunnlauna um 6.000-9.500 kr. Slíkt er algerlega óviðunandi og var samninganefnd Starfsgreinasambandsins því knúin til að slíta viðræðunum og hefja undirbúning aðgerða,“ segir í tilkynningu frá SGS.
Eru með 201 þúsund króna grunnlaun í dag
Taxtar félagsmanna innan Starfsgreinasambandsins á almenna vinnumarkaðnum í dag eru frá 201.317 krónum en eftir 4 mánaða störf er lágmarkstekjutryggingin 214.000 krónur. Flestir hópar innan raða SGS eru með samningsbundna taxta upp á 207.814 krónur til 222.030 krónur eftir sjö ára starf. Hópferðabílstjórar sem eru í hæsta virka taxta hjá SGS eru með 238.043 krónur í grunninn eftir sjö ára starf.
Starfsgreinasambandið hefur sett fram skýr markmið í kröfugerð sinni; að lægstu taxtar verði komnir upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára, þ.e. að almennt verkafólk hafi möguleika á að framfleyta sér á grunndagvinnulaunum.
Samninganefnd Starfsgreinasambandsins á hinum almenna markaði fer með umboð fyrir rúmlega 10.000 manns en Flóabandalagið (Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis) semur sérstaklega, auk þess sem fjöldi sérkjarasamninga er í gildi og taka aðgerðirnar ekki til þeirra. Þá er töluverður hluti félaga í SGS í störfum hjá ríki og sveitarfélögum. Aðgerðirnar núna snúa eingöngu að Samtökum atvinnulífsins og atkvæði um verkfallsboðun verða greidd af félagsmönnum sem taka laun samkvæmt kjarasamningum á milli SGS og SA. 42% þeirra sem greiða atkvæði um verkfall starfa á matvælasviði (fiskvinnslu, afurðastöðvum, kjötvinnslum og í sláturhúsum) en 32% atkvæðisbærra félaga eru í þjónustugreinum (ferðaþjónustu, ræstingum o.fl.), aðrir hópar telja byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, iðnað og farartækja- og flutningsgreinar.
Alls eru um 50.000 manns innan Starfsgreinasambandsins og er sambandið stærsta landssambandið innan ASÍ.
Atkvæðagreiðslan um verkfall verður rafræn og stendur frá kl. 8:00 þann 23. mars til miðnættis þann 30. mars. Gert er ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir 31. mars, rúmri viku áður en aðgerðirnar eiga að hefjast.
Yfirlit yfir verkfallsaðgerðir
- apríl 2015
Allsherjarvinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.
- apríl 2015
Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Einingar-Iðju, Stéttarfélagsins Samstöðu og Verkalýðsfélags Suðurlands.
- apríl 2015
Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Verkalýðsfélags Snæfellinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, Bárunnar stéttarfélags og Stéttarfélags Vesturlands.
- apríl 2015
Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur.
- apríl 2015
Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða AFLs starfsgreinafélags, Verkalýðsfélags Akraness, Drífandi stéttarfélags og Verkalýðsfélags Þórshafnar.
- apríl 2015
Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðsfélags Snæfellinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.
- apríl 2015
Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Einingu-Iðju, Stéttarfélagsins Samstöðu og Verkalýðsfélags Suðurlands.
- apríl 2015
Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða AFLs starfsgreinafélags, Verkalýðsfélags Akraness, Drífandi stéttarfélags, Verkalýðsfélags Þórshafnar, Bárunnar stéttarfélags og Stéttarfélags Vesturlands.
- apríl 2015
Allsherjarvinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.
12., 13., 15., 18., 19., 20., 21. og 22. maí 2015
Allsherjarvinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.
- maí 2015
Ótímabundin allsherjarvinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015 á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.