Viðskiptaráð Íslands telur að tilkynning utanríkisráðherra um aðildarviðræður við ESB fyrir helgi breyti engu um stöðu Íslands gagnvart ESB. Þetta kemur fram í tilkynningu Viðskiptaráðs til fjölmiðla.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Viðskiptaráð telur vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu gagnrýniverð. „Verklag sem þetta skapar hættulegt fordæmi og eykur enn á þann stjórnmálalega óstöðugleika sem einkennt hefur Ísland frá haustmánuðum 2008. Ef ætlunin er að efla lífskjör á Íslandi er grundvallaratriði að efnahagslegur stöðugleiki aukist. Þverpólitísk sátt um aðferðafræði og málefnaleg umræðuhefð eru hryggjarstykki þess markmiðs.“
Stjórn Viðskiptaráðs segist telja það skynsamlega sáttaleið að gera hlé á aðildarviðræðum til loka kjörtímabilsins, það myndi skapa grundvöll til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins næstu árin í breiðari sátt við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila.
Þá vekur Viðskiptaráð athygli á málsgrein í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem markmiðið er sagt vera að leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi og tortryggni sem hafi einkennt íslensk stjórnmál og umræðu. Viðskiptaráð segir tilkynningu utanríkisráðherra og aðferðafræðina við hana ganga þvert á þetta markmið í stefnuyfirlýsingunni.