Húseigendur við Grandaveg 38 hafa stefnt verktakafyrirtækjunum Hagtaki hf. og Þingvangi ehf., ásamt Vátryggingafélagi Íslands, fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna tjóns sem þeir telja húseign sína hafa orðið fyrir vegna sprengivinnu við framkvæmdir á svokölluðum Lýsisreit. Húseigendurnir krefjast þess að héraðsdómur viðurkenni skaðabótaskyldu hinna stefndu sem og málskostnað. Kjarninn hefur stefnu málsins undir höndum.
Umrædd sprengivinna átti sér stað á tímabilinu 6. janúar til 31. mars á þessu ári. Stefnendur eiga saman fasteignina að Grandavegi 38, en hún liggur að lóð í eigu Þingvangs að Grandavegi 42-44, svokölluðum Lýsisreitur. Þingvangur hyggst reisa 144 íbúðir á reitnum auk bílakjallara. Í framkvæmdunum fólst meðal annars að sprengja í burtu klöpp á reitnum, en fasteign stefnenda er innan við fimmtíu metra frá sprengisvæðinu. Hagtak hafði umsjón með sprengingunum undir eftirliti Þingvangs.
Öflugar sprengingar í andstöðu við reglugerð
Í stefnu málsins segir að sprengingarnar á Lýsisreitnum hafi verið mjög öflugar og í andstöðu við reglugerð um sprengiefni, samkvæmt gögnum sem stefnendur öfluðu sér frá Vinnueftirlitinu. Ekki liggja fyrir fullnægjandi mælingar á sprengingunum sem áttu sér stað, og svo virðist sem stefndu hafi látið undir höfuð leggjast að mæla áhrif sprenginganna á fasteign stefnenda, eins og þeim ber að gera samkvæmt áðurnefndri reglugerð um sprengiefni, að því er fram kemur í stefnu málsins.
Eftir að sprengingar á Lýsisreitnum hófust bárust verktökunum fjölmargar kvartanir frá fasteignaeigendum í námunda við sprengisvæðið. Þeir voru uggandi yfir stærð sprenginganna og töldu sig verða fyrir tjóni á fasteignum og lausafé vegna þeirra. Í kjölfar kvartananna héldu verktakafyrirtækin fund með íbúum og eigenda fasteigna nærri sprengisvæðinu þann 11. febrúar síðastliðinn. Eftir fundinn sögðust verktakarnir ætla að draga úr sprengingunum, en samkvæmt stefnunni liggur ekki fyrir hvort það hafi reynst orða sönnu.
Friðað hús við Grandaveg varð fyrir ætluðu tjóni
Fljótlega eftir að sprengingarnar hófust urðu húseigendur að Grandavegi 38 varir við tjón á fasteigninni sinni. Umrætt hús er elsta húsið sem stendur á svokölluðu Bráðræðisholti, og er einlyft timburhús með hlöðnum kjallara, reist árið 1883. Húsið hefur verulegt varðveislugildi vegna menningarsögu og mikilvægis í götumynd. Til dæmis eru allar breytingar á húsinu háðar lögum um húsafriðun.
Húseigendur fengu byggingatæknifræðing til að meta tjónið, en samkvæmt úttekt hans varð tjón á steinhleðslu í kjallara hússins og burðarsúlu á efri hæð. Auk þess telja stefnendur að frekari skemmdir hafi orðið í grunnhleðslu hússins og að burðarbitar þess hafi raskast. Þá hafi fúgur og flísar á baðherbergi brotnað.
Stefnendur sendu verktakafyrirtækjunum bréf þar sem viðurkenningar þeirra á skaðabótaskyldu var krafist og að sprengingunum yrði hætt tafarlaust. Fyrirtækin svöruðu ekki bréfunum og sáttatilraunir báru ekki árangur.
Tjónið ekki orðið nema vegna sprenginga
Krafa stefnenda byggir á því að verktakafyrirtækin beri ábyrgð á tjóni þeirra, enda hefði það ekki orðið nema vegna sprenginga sem verktakarnir beri ábyrgð á. Þá hafi verktakarnir ákveðið að losa mikið magn af klöpp, í þéttbýli, með öflugum sprengingum í stað þess að notast við vinnuvélar eða minna magn sprengiefnis í hvert skipti. Stefndu hafi ákveðið að sprengja í burtu klöppina í stað þess að notast við stórtækar vinnuvélar, sem hefðu haft í för með sér minni hættu fyrir fasteignir í nágreninu. Val þeirra við að nota sprengiefni hafi verið í hagnaðarskyni þar sem önnur aðferð kynni að vera tímafrekari.
Þá eru verktakarnir sakaðir um brot á vopnalögum með því að gera ekki nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir skemmdir vegna sprenginga.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.