Verne Global, sem rekur gagnaver að Ásbrú í Reykjanesbæ, hefur lokið hlutafjáraukningu upp á allt að 98 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um þrettán milljörðum króna. SÍA II, framtakssjóður í rekstri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka, kemur ásamt hópi íslenskra lífeyrissjóða, nýr inn í hlutahafahóp félagsins. Stærstu hluthafar Verne Global hafa til þessa verið Wellcome Trust, Novator Partners, félag að hluta í eigu Björgóls Thors Björgólfssonar, og General Catalyst, en félögin tóku öll þátt í hlutafjáraukningunni að þessu sinni.
Isaac Kato, fjármálastjóri Verne Global, segir það vera ánægjulegt að fá íslenska lífeyrissjóði að verkefninu. Í samtali við Kjarnann segir Kaato að framundan væri frekari uppbygging á enn betri þjónustu við viðskiptavini félagsins. „Við höfum sýnt fram á það með samstarfi við stóra alþjóðlega viðskiptavini að Ísland er ákjósanlegur staður fyrir gagnaver og það er spennandi fyrir okkur að fá breiðan hóp íslenskra fjárfesta að fyrirtækinu til að taka þátt í uppbyggingu þess,“ segir Kato við Kjarnann í morgun. Samtals eru um tíu lífeyrissjóðir sem koma að Verne, þar á meðal Gildi lífeyrissjóður, Festa og Frjálsi lífeyrissjóðurinn.
Á meðal stærstu viðskiptavina Verne eru BMW, RMS, Datapipe, CCP og Colt, en Kato segir það vera stefnuna að stækka fyrirtækið hratt, fjölga viðskiptavinum og styrkja þjónustuna. Fyrirtækið er með um 40 stöðugildi, en Kato segir að óbein störf séu í það minnsta tvölfalt fleiri. Hann segir mikil tækifæri vera hér á landi þegar kemur að gagnaverum. Umhverfið sé stöðugt, orkuöryggið betra en víðast hvar annars staðar og síðan það heillandi að orkan sem notuð sé komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Í samtali við Kjarnann sögðu Arnar Ragnarsson og Trausti Jónsson, sjóðsstjórar SÍA II, að ánægjulegt væri að koma að áframhaldandi þróun gagnaversiðnaðar á Íslandi. Stefnir, sem er með SÍA II í rekstri, er með um 415 milljarða króna í eignastýringu og er stærsta fyrirtæki landsins á því sviði.
Ráðgjafi Verne Global í verkefninu var verðbréfafyrirtækið Arctica Finance, sem sinnir fyrirtækjaráðgjöf, markaðsviðskiptum og eignastýriningu á íslenska markaðnum.