Hækkun markaðsvakta mun fljótlega birtast í aukinni greiðslubyrði óverðtryggðra lána. Fjöldi slíkra lána hefur aukist töluvert á síðustu árum og hefur lítil umræða verið um afleiðingar verðbólguskots og þar með hækkunar vaxta á greiðslubyrgði slíkra lána. Ekki er óhugsandi að lántakendur muni reyna að endurfjármagna slík lán og leita frekar yfir í verðtryggð lán.
Þetta segir í fréttabréfi hagfræðideildar Landsbankans, Hagsjá, í dag. Í bréfinu er fjallað um stöðuna á fasteignamarkaðinum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál.
Vaxtakjör á skuldabréfamarkaði hafa farið versnandi að undanförnu, í krafti væntinga um aukna verðbólgu. Það er þegar farið að skila sér í versnandi lánakjörum til almennings.
Að mati hagfræðideildarinnar ríkir verulega óvissa á fasteignamarkaði. Því er spáð að fasteignaverð hækki um 10 prósent í ár og 8 prósent á ári 2016 og 2017. „Hagfræðideild hefur talið að skortur á framboði íbúða hafi myndað þrýsting á verð upp á við. Þá hefur niðurstaða um lækkun höfuðstóls og greiðslubyrði verðtryggða skulda aukið eftirspurn og þannig stuðlað að hærra verði.
Áhrif launahækkana og kaupmáttaraukningar í upphafi samningstímans ásamt aukinni verðbólgu á næstu misserum og hækkunar stýrivaxta mun hafa margvísleg áhrif á íbúðaverð. Aukin verðbólga og kaupmáttur ýta undir fasteignaverð.“ Hins vegar muni hækkun markaðsvakta leiða til aukinnar greiðslubyrgði óverðtryggðra lána.
Verkfall BHM hefur veruleg áhrif
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 8,8 prósent á tólf mánaða tímabili frá marsmánuði 2014. Frá mars síðastliðnum hefur engum kaupsamningum verið þinglýst hjá sýslumanni vegna verkfalls BHM. Hagfræðideild segir verkfallið hafa veruleg áhrif á fasteignamarkaðinn. Þetta þýði að engar upplýsingar eru aðgengilegar um fjölda viðskipta né verð. „Þá hefur þessi staða líka hamlað eðlilegum viðskiptum töluvert þar sem greiðslur vegna samninga geta ekki farið fram. Það hefur því hægt töluvert á viðskiptum. Ekki er útséð hvenær þessari kælingu fasteignamarkaðar lýkur né hver áhrifin verða til lengri tíma ef þau verða þá einhver.“