Hátt vaxtastig og fjármagnskostnaður er ástæða þess að ekki eru forsendur fyrir því að byggja upp íbúðaleigumarkað á Íslandi. Leigufélög þyrftu að hafa aðgengi að lánsfé sem beri um þrjú prósent raunvexti til að rekstur þeirra myndi borga sig. Það mun ekki gerast nema með samstilltu átaki stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og lífeyriskerfisins. Þetta segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, í opnuviðtali við ViðskiptaMoggann í dag.
Helgi segir íbúðaleigumarkaðinn allt annars eðlis en sá fasteignamarkaður sem félagið hans starfar á. Hann sé ekki líklegur til að skila mikilli arðsemi eins og staðan er "jafnvel þó að kvartað sé undan háu leiguverði."
Hann segist einfaldlega vera þeirrar skoðunar að ekki verði hægt að byggja upp leigufélög til að mæta þeirri þörf og eftirspurn sem sé fyrr en að lánsfé sem ber þrjú prósent raunvexti verði gert aðgengilegt. TIl að það gerist þurfi lánveitendur að gefa eftir í ávöxtunarkröfur þeirra fjármuna sem þeir myndu lána til verkefnanna.
Leiguverð hefur hækkað mikið
Ljóst er að leiguverð hefur hækkað mjög hratt undanfarin ár. Í júlí síðastliðnum kostaði til að mynda um 139 þúsund krónur á mánuði að leigja 60 fermetra tveggja herbergja íbúð í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum úr leigugagnagrunni Þjóðskrár. Í byrjun árs 2011 kostaði um 101 þúsund krónur að leigja sömu íbúð. Á meðal þess sem talið er að hafi keyrt upp leiguverð er mikið eftirspurn ferðamanna eftir gistingu, en fjöldi þeirra hefur margfaldast á örfáum árum og voru þeir um ein milljón alls í fyrra. Fjöldi þeirra hefur vaxið mjög í ár.
Húsnæðisverð hefur sömuleiðis hækkað mikið. Þannig hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hækkað um 36,5 prósent frá janúar 2011 til sama mánaðar 2015. Frá júlí mánuði 2014 og fram til sama mánaðar í ár hækkaði það um 10,6 prósent. Greinendur spá auk þess allt að 25 prósent hækkun til viðbótar út árið 2017.
Þessi staða hefur gert mörgum hópum í íslenskum samfélagi erfitt fyrir á húsnæðismarkaði. Nýlegar tölur frá Hagstofu Íslands sýna til dæmis að tæplega 40 prósent Íslendinga á aldrinum 20 til 29 ára búa enn heima hjá foreldrum sínum. Í Danmörku er hlutfallið um tíu prósent. Ein helsta ástæða þess að Íslendingar búa lengur í foreldrahúsum er talin vera hátt leiguverð.