Hluti þeirra sem völdu að nota viðbótarlífeyrissjóðsgreiðslur sínar til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána sinna í „Leiðréttingunni“ svokölluðu hafa orðið fyrir því að greiðslan þeirra hefur farið í að greiða fjármálastofnunum vexti en ekki til að greiða niður höfuðstólinn. Þetta hefur gerst vegna þess að greiðslan frá lífeyrissjóði viðkomandi barst ekki sama dag og gjalddagi húsnæðislánsins var.
Því fer hluti af viðbótarlífeyrissparnaði þessa fólks í að greiða kostnað þessa hóps. Með öðrum orðum þá nýtist þessi hluti viðbótarlífeyrissparnaðar, sem atvinnurekendur og fólkið sjálft leggur til hliðar, engum nema þeim fjármálastofnununum sem halda á húsnæðislánum þessa fólks.
Kannast við vandamálið og búið að bregðast við
Kjarnanum barst ábending frá einstaklingi sem hafði komist að því að hluti viðbótarlífeyrissparnaðar hans væri að fara í greiðslu á vöxtum vegna þess að greiðsla lífeyrissjóðsins til viðkomandi fjármálafyrirtækis barst eftir gjalddaga lánsins. Þá voru vextir næsta gjalddaga á eftir greiddir.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segist kannast við þetta vandamál, en embætti hans sér um framkvæmd „Leiðréttingarinnar“. „Vandamálið var bundið við einstakar lánastofnanir, einkum Íbúðalánasjóð, sem ekki er vitað til annars en að hafi nú þegar brugðist við og lagfært þá ónákvæmni sem þarna var.“ Ástæða þess að þetta gerðist hafi verið sú að lánakerfi hafi verið missveigjanleg til að stýra greiðslu inn á höfuðstól láns. Vert er eða taka fram að Íbúðalánasjóður er í eigu og á ábyrgð ríkisins. Vextirnir sem hann fær greitt eru því ágóði fyrir ríkið, eða dregur hið minnsta úr því fjármagni sem ríkið neyðist tilað leggja Íbúðalánasjóði til.
Skúli Eggert segir að málið verði rætt við verkefnisstjórn „Leiðréttingarinnar“ síðar í þessari viku og þá undir þeim formerkjum að komið hafi í ljós vissir ágallar sem nú þegar hafa verið lagfærðir.
Stærsta mál ríkisstjórnarinnar
„Leiðréttingin“ er stærsta málið sem sitjandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur komið í gegn. Í henni felst að ríkissjóður greiðir hluta þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 allt að 80 milljarða króna í nokkurs konar miskabætur fyrir það verðbólguskot sem átti sér stað á tímabilinu. Stjórnvöld hafa enn ekki viljað birta tæmandi upplýsingar um hvernig þessi upphæð skiptist á tekju-, eigna- eða aldurshópa en von er á skýrslu um málið á þessu þingi.
Stjórnvöld hafa enn ekki viljað birta tæmandi upplýsingar um hvernig þessi upphæð skiptist á tekju-, eigna- eða aldurshópa en von er á skýrslu um málið á þessu þingi.
Hin hluti „Leiðréttingarinnar“ snérist um að heimila fólki að greiða viðbótarlífeyrissparnað sinn í þrjú ár inn á höfuðstól húsnæðislána. Hagur fólks við að gera þetta felst í því að greiðslurnar eru skattfrjálsar, en af öðrum viðbótarlífeyri þarf að greiða skatt við útgreiðslu. Ríki er því að gefa eftir um 20 milljarða króna í skattgreiðslur vegna þessa.
Útreikningar sýndu að með þessum hætti ættu Íslendingar að geta notað allt að 70 milljarða króna af viðbótarlífeyrissparnaði sínum í að greiða niður höfuðstól húsnæðislána sinna. Nú er ljóst að hluti þeirrar upphæðar hefur runnið beint til íslenskra fjármálafyrirtækja vegnavaxta sem urðu til án þess að fólkið sem greiðir þá hafi dregið að greiða nokkur skapaðan hlut. Það skráði sig einfaldlega í þennan hluta „Leiðréttingarinnar“ á heimasíðunni leidretting.is og byrjaði að greiða. Í því umsóknarferli er aldrei tilgreint að mögulega muni hluti viðbótarsparnaðarins fara í að greiða vexti.
Viðbót klukkan 13:03
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri vill koma á framfæri að dráttarvextir seú ekki greiddir með innborgun viðbótarlífeyrissparnaðar nema að lánið sé komið í vanskil. Vextir vegna næsta gjalddaga voru greiddir í þeim málum sem fjallað er um. Fréttinni hefur verið breytt í takt við þessar upplýsingar.