Viðræður við slitabú föllnu bankanna um að mæta skilyrðum stjórnvalda fyrir nauðasamningum hafa staðið yfir frá því í desember, samkvæmt heimildum Kjarnans. Slitastjórnir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans skrifuðu nýverið undir viljayfirlýsingar um að mæta þeim skilyrðum sem stjórnvöld hafa sett til að veita þeim undanþágu til að klára nauðasamninga sína og ljúka slitum búanna. Samkvæmt þeim skilyrðum gefa kröfuhafar bankanna eftir um 900 milljarða króna. Því eru meiri líkur en minni á að það muni ekki reyna á álagningu stöðugleikaskatts í lok þessa árs.
Á heimasíðu slitabús Glitnis hefur verið birt tilkynning vegna málsins. Þar kemur fram að kröfuhafar, sem eiga um 25 prósent af kröfum í bú Glitnis, hafi verið í einkaviðræðum við framkvæmdahóp stjórnvalda um losun hafta um þau skilyrði sem Glitnir þarf að uppfylla til að fá undanþágu frá höftum svo hægt sé að ljúka nauðasamningi. Slitastjórnin segir í tilkynningunni að þessar viðræður hafi leitt til þess að skilyrðin sem kynnt voru á kynningarfundi stjórnvalda um haftalosunaráætlun í dag hafi verið samþykkt. Slitastjórnin segist nú ætla að kynna sér smáatriði í stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og stöðugleikaskattinum sem lagður verður á um næstu áramót semjist ekki fyrir þann tíma. Í kjölfarið muni hún leita eftir nægjanlegu samþykki frá kröfuhöfum sínum til að leggja fram undanþágubeiðni frá höftum og reyna að klára nauðasamninga.