Viðskiptaráð Íslands segir að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafi farið rangt með það skatthlutfall sem hann þarf að greiða af arðgreiðslum til sín og það skatthlutfall sem konan sem þrífur skrifstofuna hans greiðir af tekjum sínum í þættinum Ferð til fjár. Ráðið kallar eftir að umræða um skattamál byggi á staðreyndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðinu sem Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri þess, og Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur, skrifa undir.
Kári Stefánsson vakti mikla athygli í þættinum Ferð til fjár sem sýndur var á RÚV í gær. Þar sagðist Kára blöskra að eingöngu 20 prósent skattur er greiddur af fjármagnstekjum á meðan 40 prósent skattur er greiddur af tekjum. Hann sagði enn fremur að skattkerfið væri óréttlátt og að vegna smæðar sinnar þoli íslenskt samfélag ekki jafn mikinn ójöfnuð og stórt samfélag.
Kári sagði m.a.: „„Eitt af því sem mér blöskrar er að þegar ég fæ arð af eignum mínum, með því að selja eignir sem ég á, þá greiði ég af því 20 prósent fjármagnstekjuskatt, en konan sem þvær gólfið á skrifstofu mínni með sínar 350 til 400 þúsund krónur á mánuði, borgar 40 prósent tekjuskatt,“ segir Kári. „Hvernig í ósköpunum getur það kallast réttlæti að menn borga minna af tekjum sem þeir hafa af eignum sínum án þess þurfa að standa upp úr stól en þeir þurfa að borga fyrir fyrir það sem þeir vinna fyrir í sveita síns andlits.“
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Viðskiptaráð Íslands hefur sent frá sér tilkynningu vegna þessarra ummæla Kára þar sem ráðið telur sig knúið til að leiðrétta ýmislegt sem Kári sagði í þættinum. Í tilkynningunni segir meðal annars að skúringarkonan í dæmi Kára greiði 25 prósent tekjuskatt, ekki 40 prósent, að teknu tilliti til persónuafsláttar, og fái auk þess greiðslur úr vaxta- og barnabótakerfinu ef viðkomandi á húsnæði eða börn. Þá sé skattlagning á arðgreiðslur 36 prósent, en ekki 20 prósent líkt og Kári hélt fram. Félagið sem greiðir út arð þurfi að greiða 20 prósent skatt af greiðslunum og svo þurfi einstaklingurinn sem fær arðinn að greiða önnur 20 prósent af arðgreiðslunni sjálfri.
Kári sagði einnig það sjónarmið vera uppi að eðlilegt væri að setja hámark á hvað menn greiða til samfélagsins svo þeir væru ekki að bera of stóran hluta af byrðinni.
Viðskiptaráð er þessu ósammála og segir að einu tekjuskattarnir sem leggist með hlutfallslega þyngri hætti á tækjulægri einstaklinga séu nefskattar.
Í tilkynningu Viðskiptaráðs segir að lokum að það sé „grundvallarmarkmið að Íslendingar búi við skattkerfi sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á lífskjör einstaklinga og sem breiðust sátt ríkir um. Til að svo megi verða þarf umræða um stefnu í skattamálum hins vegar að byggja á staðreyndum. Þegar litið er til þeirra má sjá að skattbyrði einstaklinga er þyngri eftir því sem tekjur þeirra eru hærri. Fullyrðingar um annað standast ekki nánari skoðun.“