Viðskiptaráð styður frumvarp þar sem lagt er til að lögum um verslun með áfengi og tóbak verði breytt þannig að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði heimiluð í matvöruverslunum.
Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs sem það hefur sent Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Viðskiptaráð tekur undir það sjónarmið að ríkið eigi ekki að standa í verslunarrekstri enda hafi ráðið ávallt talað fyrir því að hið opinbera láti af rekstri sem einkaaðilar geti sinnt með hagkvæmari hætti. Þá telur ráðið að hægt sé að ná markmiðum um lágmörkun á skaðlegum áhrifum áfengisneyslu með öðrum leiðum en ríkiseinokun á smásölu áfengra drykkja, meðal annars í gegnum forvarnarstarf. Loks telur Viðskiptaráð að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér komi til með að auka hagkvæmni í smásölu áfengis án þess að skerða tekjur ríkissjóðs.
Þá segir Viðskiptaráð í umsögn sinni að reynslan af íslenskum smásölumarkaði sýni svart á hvítu að aukið frelsi í verslunarrekstri hafi stuðlað að verulegum kjarabótum fyrir neytendur hérlendis á undanförnum áratugum.
Að endingu leggur Viðskiptaráð til að frumvarpið nái fram að ganga.
Í umsögn Félags Atvinnurekenda, sem skilaði sinni umsögn til Allsherjar- og menntamálanefndar þann 5. nóvember síðastliðinn, kemur fram að félagið telji nálgun frumvarpsins of þrönga. Á því séu alvarlegir annmarkar sem hafi í för með sér að verði það samþykkt óbreytt muni það á sumum sviðum þýða afturför hvað varði aðgengi neytenda að áfengi. Telur félagið jafnframt að frumvarpið myndi hafa í för með sér afar íþyngjandi breytingar fyrir bæði framleiðendur og innflytjendur áfengis, sem á endanum myndu koma niður á samkeppni, fjölbreytni, vöruframboði og verði á áfengismarkaði.