Viðskiptaráð Íslands styður frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála, um náttúrupassa, en telur að huga þurfi frekar að útfærslu passans. Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs við frumvarpið og send hefur verið atvinnuveganefnd Alþingis.
Gjaldtaka á ferðamannastöðum er eina sanngjarna leiðin til að afla tekna til uppbyggingar innviða að mati Viðskiptaráðs. Þannig borgi einungis þeir sem „nota þjónustuna,“ í stað þess að leggjast á alla ferðamenn eða skattgreiðendur á Íslandi.
Þá er það mat Viðskiptaráð að svokölluð blönduð leið, það er að þeir staðir sem henta vel til sértækrar gjaldtöku „innheimti hver fyrir sig“ og aðrir staðir falli undir náttúrupassa, muni skila mestum árangri til gjaldtökunnar til lengri tíma. Sömuleiðis segir Viðskiptaráð í umsögn sinni að það sé æskilegra að gjaldtaka vegna náttúrupassans fari í gegnum sjálfseignarstofnun eða annað sambærilegt fyrirkomulag, fremur en að fara í gegnum ríkissjóð. Það komi í veg fyrir að gjaldtakan þróist yfir í sértækan skattstofn þegar krafan um unnviðabyggingu dvínar.
Að lokum er það mat Viðskiptaráðs að afnema skuli gistináttaskatt samhliða upptöku náttúrupassa.