Viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs hafa greitt upp íbúðalán að fjárhæð um 9,2 milljarðar króna á fyrstu fimm mánuðum ársins 2015. Á sama tímabili nema ný almenn útlán sjóðsins einungis tæpum 1,5 milljörðum. Það er um 600 milljónum minna en á sama tímabili 2014. Nýjum lántökum fer fækkandi og ekkert lát virðist vera á að viðskiptavinir endurfjármagni íbúðalán sín hjá öðrum lánastofnunum.
Íbúðalánasjóður birti mánaðarlega yfirlitsskýrslu í dag. Þar kemur fram að í maí námu almenn útlán 178 milljónum samanborið við 321 milljón í maí 2014. Ef litið er á fyrri mánaðarskýrslur á þessu ári má sjá að fjárhæð útlána til almennra íbúðakaupa hefur ekki verið lægri en í maímánuði.
Auglýsing
Íbúðalánasjóður er enn stærsti íbúðarlánveitandi á Íslandi. En almenn útlán dragast hratt saman og uppgreiðslur voru aldrei hærri en á síðasta ári, alls 26,3 milljarðar króna. Það sem af er ári hafa viðskiptavinir greitt upp um 9,2 milljarða af lánum, þar af um 1,4 milljarða króna í maí.